Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, er áhrifamesta konan undanfarin 200 ár að mati Breta. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar í Bretlandi. Pólsk-franski vísindamaðurinn Marie Curie var í öðru sæti og í því þriðja Elísabet II. Bretadrottning.
Díana Bretaprinsessa var í fjórða sæti, kvenréttindakonan Emmeline Pankhurst í fimmta sæti og móðir Teresa í því sjötta samkvæmt frétt Reuters. Þá kom breska hjúkrunarkonan Florence Nightingale, Viktoría Bretadrottning og bandaríska mannréttindakonan Rosa Parks. Bandaríska sjónvarpskonan Oprah Winfrey var síðan í tíunda sæti.
Thatcher var forsætisráðherra frá 1979 til 1990 og leiddi Íhaldsflokkinn til sigurs í þrennum þingkosningum í röð. Hún lést árið 2013.