Recep Erdogan, forseti Tyrklands, lýsti í dag reiði yfir heimsókn bandarísks erindreka til bæjarins Kobane í síðustu viku. „Er það ég sem er með ykkur í liði eða hryðjuverkamennirnir í Kobane?“ höfðu tyrkneskir fjölmiðlar eftir honum.
Kobane hefur verið undir stjórn kúrdískra hersveita, YPG, síðan þær frelsuðu bæinn frá umsátri íslamska ríkisins. Bandalag vestrænna þjóða í Sýrlandi hefur unnið náið með YPG síðan árið 2014 og stutt Kúrdana bæði með birgðum og loftárásum.
Samstarfið hefur valdið Tyrkjum miklum höfuðverkjum heimafyrir en þeir óttast mjög uppgang Kúrda í eigin landi sem fara fram á sjálfstætt ríki þar líkt og í Írak (og í raun í Sýrlandi síðan borgarastríðið þar braust út). Stjórnmálaarmi YPG, PYD, var meinuð þátttaka í nýlegum friðarviðræðum í Genf eftir að Tyrkir hótuðu að sniðganga þær yrði Kúrdunum boðið.
PKK-samtökin í Tyrklandi hafa háð þar blóðuga baráttu fyrir sjálfstæði Kúrda og eru á lista yfir hryðjuverkasamtök víðast hvar. Erdogan vill meina að flokka eigi samtök Kúrda í Sýrlandi með sama hætti. „Samþykkið þið PKK sem hryðjuverksamtök? Hví flokkið þið því ekki YPG og PYD sem hryðjuverkasamtök líka?“ spurði Erdogan.