Franski matreiðslumaðurinn Benoît Violier, sem framdi sjálfsvíg fyrir rúmri viku, var fórnarlamb fjársvika, ponzi-svindls, og var afar skuldsettur, segir í frétt Daily Mail í gær og er þar vísað í frétt svissnesks viðskiptatímarits, Bilan.
Í frétt Daily Mail segir að Violier, sem var 44 ára gamall eigandi veitingastaðarins Restaurant de l'Hotel de Ville, hafi verið fórnarlamb svikamyllu svissnesks vínfyrirtækis, Private Finance Partners, með höfuðstöðvar í Sion. Veitingastaður Violiers er í Crissier, skammt frá Lausanne, og var staðurinn valinn sá besti í heimi af La Liste í desember. Staðurinn er með þrjár Michelin-stjörnur.
Í Daily Mail kemur fram að svindlið hafi falist í því að vínfyrirtækið seldi fágæt vín á 14.000-27.500 pund, 2,6-5 milljónir krónur flaskan, til veitingastaða en vínið hafi hins vegar aldrei skilað sér til veitingastaðanna. Hver flaska var seld til þriggja eða fjögurra veitingastaða sem síðan sátu eftir með sárt ennið.
Tap Violiers vegna þessa nam 1,37 milljónum punda, sem svarar til 254 milljóna íslenskra króna.
Stjörnugjöf í skugga sjálfsvígs