Front National helsta skotmark Ríkis íslams

Marine Le Pen formaður Front National
Marine Le Pen formaður Front National AFP

Helsta skotmark hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams er franski þjóðernisflokkurinn Front National. Það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær næst verði ráðist til atlögu í Frakklandi.

Í nýjustu útgáfu áróðursrits Ríki íslams, Dar al Islam, er að finna mynd af göngu félaga Front National undir fyrirsögninni: „Helsta skotmarkið“.

„Spurningin er ekki hvort ráðist verður á Frakkland aftur heldur hvernig verður ráðist á það og hvernig,“ segir í Dar al Islam, samkvæmt frétt The Local.

Franskur sérfræðingur í málefnum íslamista, sagnfræðingurinn Romain Caillet, birti þetta einnig á Twitter um helgina en hann er mjög virkur á samfélagsmiðlunum og fylgist grannt með starfsemi Daesh (Ríkis íslams). Í fyrsta skipti eru félagar í Front National nefndir sem skotmark í opinberum gögnum frá hryðjuverkasamtökunum.

Félagar í Front National hafa brugðist hart við þessum fréttum, þar á meðal varaformaður flokksins Nicolas Bay. Hann sendi fréttina í Twitterfærslu til Manuel Valls, forsætisráðherra og spyr hvort Valls sé sáttur.

Valls gagnrýndi FN harkalega í viðtali við Europe 1 nýverið og sagði flokksmenn rasista og gyðingahatara.

Að vísu bendir Caillet á að svo geti verið að merkingin sé önnur. Að félagar í Ríki íslams séu ósáttir og þreyttir á óábyrgum slagorðum þingmanna sósíalista sem segja að það að kjósa FN sé það sama og greiða Ríki íslams atkvæði í héraðskosningum. Þingmaðurinn segir að FN sé að sundra íbúum Frakklands sem sé sama takmark og Ríki íslams hefur.

Í desember birti Dar al Islam ábendingu til múslíma sem eiga börn í frönskum skólum um að þau ættu að taka börn sín úr skólum landsins og drepa kennara sem fylgi veraldarhyggjustefnu Frakka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert