Neðri deild franska þingsins hefur samþykkt að lögfesta „neyðarástand“ í stjórnarskrá landsins. Um er að ræða einn af umdeildum viðaukum sem stjórnvöld lögðu til í kjölfar hryðjuverkanna í París í nóvember síðastliðnum.
Úrræðið, sem veitir yfirvöldum aukið vald, var samþykkt með 103 atkvæðum gegn 26.
Francois Hollande Frakklandsforseti lýsti yfir neyðarástandi í kjölfar árásanna 13. nóvember, þar sem 130 voru myrtir af árásarmönnum vopnuðum sprengjum og skotvopnum. Lögregla og öryggissveitir fengu þá vald til að gera húsleitir og hneppa fólk í varðhald án sérstakra úrskurða.
Samkvæmt tillögunni sem var samþykkt þarf þingið að veita heimild fyrir því að neyðarástand vari lengur en 12 daga. Fáist slíkt samþykki getur það varað í allt að fjóra mánuði, en að þeim tíma liðnum þarf þingið að samþykkja framlengingu.