Myndir af Barbí með andlitsslæðu að hætti múslima á Instagram hafa vakið töluverða athygli. Ekki er um að ræða auglýsingar frá leikfangaframleiðandanum Mattel sem framleiðir dúkkurnar heldur ljósmyndir 24 ára múslima sem vildi skapa fyrirmynd sem stúlkur sem aðhyllast íslam gætu tengt við.
Haneefa Adam stofnaði reikning á Instagram og deilir þar myndum af dúkkunum í fötum sem hún hefur saumað sjálf. Sagðist hún í samtali við CNN ekki hafa séð Barbí með andlitsslæðu áður og vildi hún bæta úr því. Hún vildi hafa dúkkuna eins og hún myndi sjálf klæða sig.
Adam er með meistaragráðu í lyfjafræði. Hún segir klæðnaðinn eiga rætur í trú sinni og menningu. Klæðnaður hinnar hefðbundnu Barbí sé afar ólíkur hennar menningu og segir hún það hið besta mál. Hún hafi aftur á móti viljað gefa múslimum annan valmöguleika.
Viðbrögðin hafa að hennar sögn flest verið jákvæð og hafa margir haft samband við hana í von um að geta keypt dúkku.
Frétt mbl.is: Sögulegur dagur fyrir Barbí
A photo posted by Mini Hijab Fashion! (@hijarbie) on Jan 13, 2016 at 2:31am PST