Trump og Sanders eygja sigur

Íbúar New Hampshire eru ef til vill ekki margir, en …
Íbúar New Hampshire eru ef til vill ekki margir, en flestir íbúar Hvíta hússins sl. 60 ára hafa farið með sigur í forkosningunum þar og því þykja þær mikilvægari en margar aðrar. AFP

Kjósendur í New Hampshire óðu í dag snjó til að mæta á kjörstað og greiða forsetaefnum demókrata og repúblikana atkvæði í öðrum forkosningunum sem nú standa yfir í Bandaríkjunum.

Viðskiptajöfurinn Donald Trump vonast til að tryggja sér sinn fyrsta sigur eftir að hafa lent í öðru sæti á eftir Ted Cruz í Iowa, en Hillary Clinton hefur keppst að því að minnka bilið sem skilur hana og keppinaut hennar, Bernie Sanders, að.

Íbúar New Hampshire eru 1,3 milljón talsins en gætu ráðið úrslitum um hvort það fækkar í röðum repúblikana þegar niðurstöður liggja fyrir. Trump leiðir kapphlaupið í ríkinu en Teboðs-uppáhaldið Ted Cruz og vonarstjarnan Marco Rubio eygja báðir annað sætið.

Í bænum Canterbury, þar sem íbúar eru á bilinu 2.000 til 3.000, lögðu kjósendur leið sína á kjörstað í morgunsárið í frosti og snjó. David Emerson, stuðningsmaður Bernie Sanders, sagðist myndu vera á kjörstað allan daginn.

„Þetta er aðalmálið, að standa hér með skiltið,“ sagði Emerson, sem hélt einmitt á skilti með mynd af uppáhaldsframbjóðandanum. „Hann er sá eini sem vert er að styðja. Hillary hefur gert það ljóst að hjá henni er það sama gamla. Bernie talar um það sem þarf að gera. Vonandi er hann að koma af stað hreyfingu.“

Samkvæmt könnunum stefnir í stórsigur Sanders í New Hampshire.
Samkvæmt könnunum stefnir í stórsigur Sanders í New Hampshire. AFP

Síðastliðin 60 ár hafa langflestir íbúar Hvíta hússins farið með sigur í forkosningunum í New Hampshire. Því þykja kosningarnar þar vega þyngra en margar aðrar, þrátt fyrir smæð ríkisins.

Samkvæmt könnun RealClearPolitics nýtur Sanders 53,3% stuðnings en Clinton 40,5%. Trump fer sem fyrr segir fyrir frambjóðendum repúblikana og nýtur stuðnings 31,2% kjósenda en enginn annar frambjóðandi flokksins nær 16%.

Það skekkir þó myndina að í New Hampshire er fjöldi sjálfstæðra kjósenda, sem er frjálst að taka þátt í öðrum hvorum kosningunum, og þá voru 30% kjósenda óákveðnir þar til nýlega.

AFP heimsótti fimm kjörstaði fyrr í dag og var kjörsókn sögð stöðug.

Trump mætti á kosningafund í Manchester í gær, ásamt eiginkonu …
Trump mætti á kosningafund í Manchester í gær, ásamt eiginkonu sinni Melaniu. AFP

Komið að endastöð?

„Trump!“ hló Karen Carone, í bænum Loudon, spurð að því hvern hún hygðist kjósa. Hún sagðist hafa trú á því að fasteignamógúllinn litríki myndi gera Bandaríkin „mikil“ á ný.

„Hann virðist tala fyrir þögla meirihlutann,“ samsinnti bifvélavirkinn Chris Skora. „Mörg okkar upplifa það og það virðist sem við getum ekki sagt þessa hluti í dag með pólitísku rétttrúnaðarlögreglunna út um allt.“

Svo virðist sem milljarðamæringnum hafi tekist að höfða til hins vinnandi Bandaríkjamanns, sem hefur fengið að finna fyrir efnahagserfiðleikum og þyrstir í endurheimt bandaríska draumsins.

Trump þarf hins vegar á sannfærandi sigri að halda til að ná aftur striki eftir ósigurinn í Iowa.

„Sjáðu til, ég vil sigra,“ sagði Trump í samtali við MSNBC í dag. „Ég meina, það er það sem ég geri, ég vinn. Ég tók ekki slaginn til að tapa.“

Aðrir frambjóðendur repúblikanaflokksins vonast til þess að sterk úrslit í New Hampshire fleyti þeim áfram til Suður-Karólínu og Nevada. Fyrir Jeb Bush, Chris Christie og John Kasich kann miður góð niðurstaða að þýða að komið sé að endastöð.

Marco Rubio, sem var niðurlægður í kappræðum síðastliðinn laugardag, vonast eftir því að tryggja sér annað eða þriðja sæti. Öldungadeildaþingmaðurinn, sem þótti endurtaka sig eins og vélmenni í kappræðunum, mátti þola mótmælendur í róbótabúningum þegar hann heilsaði upp á kjósendur í Manchester í morgun.

Clinton heilsaði upp á kjósendur í dag, jafnvel þá sem …
Clinton heilsaði upp á kjósendur í dag, jafnvel þá sem hugðust ekki greiða henni atkvæði sitt. AFP

Harður slagur

Hvað varðar forsetaefni demókrata vonast Hillary Clinton eftir niðurstöðu þvert á kannanir, sem spá fyrir um stórsigur Bernie Sanders. Sanders nýtur þess að vera öldungadeilarþingmaður nágrannaríksins Vermont og hefur lagt mikla áherslu á að útrýma efnahagslegu ójafnræði.

„Veistu, ég elska hvernig New Hampshire gerir þetta,“ sagði Clinton þegar hún og dóttir hennar Chelsea heilsuðu upp á kampakáta kjósendur í skóla í Manchester. „Ég kann að meta að íbúar New Hampshire taki þetta svona alvarlega.“

Aðeins hársbreidd skildi að Clinton og Sanders í Iowa, en flestir telja líklegt að utanríkisráðherrann fyrrverandi muni að lokum hreppa útnefningu demókrata. Sanders virðist hins vegar staðráðin í því að láta Clinton hafa fyrir hnossinu, eins lengi og hann mögulega getur.

Bifvélavirkinn Skora segir það spennandi upplifun að fá að taka þátt í hinum mikilvægu forkosningum. „Það hefur alltaf haft þýðingu. Þar sem ég er fæddur og uppalinn hér í New Hampshire, þá er indælt að geta upplifað alla frambjóðendurna í návígi.“

Það kom til ryskinga milli stuðningsmanna Rubio og róbóta-klæddra mótmælenda …
Það kom til ryskinga milli stuðningsmanna Rubio og róbóta-klæddra mótmælenda í New Hampshire í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert