Cameron vill Assange úr sendiráðinu

Cameron segir að Assange ætti að yfirgefa sendiráðið og taka …
Cameron segir að Assange ætti að yfirgefa sendiráðið og taka því sem koma skal. Samsett mynd/AFP

Julian Assange ætti að yfirgefa sendiráð Ekvador í Lundúnum og binda enda á „þessa sorgarasögu“, sagði David Cameron forsætisráðherra Breta á breska þinginu í dag. Hann sagði niðurstöðu nefndar Sameinuðu þjóðanna „fáránlega“.

Assange hefur verið sakaður um kynferðisbrot í Svíþjóð og hefur dvalið í sendiráðinu til að koma í veg fyrir að verða afhentur sænskum yfirvöldum, en hann óttast að verða framseldur frá Svíþjóð til Bandaríkjanna, þar sem hann á yfir höfði sér ákærur vegna Wikileaks.

Nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að Assange hefði sætt ólögmætu varðhaldi af hálfu Breta og Svía, en Cameron sagði hana út í hött.

„Hér hefur þú mann sem hefur verið sakaður um nauðgun. Hann lokaði sig inni í sendiráði Ekvador en heldur því fram að hann hafi sætt ólögmætu varðhaldi. Eina manneskjan sem hélt honum í haldi var hann sjálfur.“

Forsætisráðherrann sagði að Assange ætti að yfirgefa sendiráðið og takast á við handtökuskipunina sem hefði verið gefin út á hendur honum. Þá benti hann á að ásakanirnar hefðu verið lagðar fram í Svíþjóð, ríki sem hefði gott orðspor hvað varðar útdeilingu réttlætis.

Sænskur saksóknari sagði í gær að þess yrði áfram freistað að yfirheyra Assange í sendiráðinu, þrátt fyrir niðurstöðu nefndar SÞ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert