50 þúsund íbúar hraktir á flótta

AFP

Harðir bardagar í Aleppo héraði undanfarna daga hafa hrakið 50 þúsund íbúa á flótta, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóða Rauða krossinum (ICRC). 

Ástandið þar versnar dag frá degi og hafa vatnsleiðslur til Aleppo borgar nú verið eyðilagðar. Stjórnarherinn í Sýrlandi er að reyna að ná þeim hlutum borgarinnar á sitt vald á ný sem uppreisnarmenn hafa ráðið yfir undanfarin misseri. Til þess að ná takmarki sínu fær herinn stuðning og aðstoð frá rússneska flughernum. 

AFP




Mjög er þrýst á Tyrki að hleypa 30 þúsund flóttamönnum sem bíða við landamærin yfir en fólkið er frá Aleppo. ICRC segir að ekki sé hægt að senda nein hjálpargögn til borgarinnar þar sem sótt er að henni úr öllum áttum.

 Á BBC er haft eftir yfirmanni ICRC í Sýrlandi, Marianne Gasser, að það sé mjög kalt á þessum slóðum og þegar fólk hafi hvorki aðgang að mat, vatni né húsaskjóli sé erfitt að lifa af.

Læknar án landamæra, Medecins Sans Frontieres (MSF), varað við því að bardagarnir í Azaz, skammt frá landamærum Tyrklands, valdi því að heilbrigðiskerfið er komið að falli. Fólk streymi að til þess að leita skjóls í yfirfullum flóttamannabúðum. Það er hætta á að fólk, þar á meðal ung börn og gamalmenni, endi með því að láta fyrirberast úti í kuldanum í nokkra daga hið minnsta.

Tyrkir hafa þegar tekið við 2,5 milljónum sýrlenskra flóttamanna á undanförnum fimm árum og segjast halda því áfram en undir eftirliti. Óttast er um afdrif 300 þúsund íbúa Aleppo eftir að umsátrið um borgina hófst en yfir 500 manns hafa dáið þar síðan 1. febrúar. 

Frétt BBC

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka