Frans páfi og Kirill, patríarki rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, kysstust og settust saman í Havana á fyrst fundi æðstu manna þessara kristnu trúarhópa í nær þúsund ár. Þeir gáfu í kjölfarið út sameiginlega yfirlýsingu.
„Loksins hittumst við. Við erum bræður. Bersýnilega er þessi fundur guðs vilji,“ sagði páfi. Frans páfi er sagður vilja bæta tengslin við rétttrúnaðarkirkjuna sem klauf sig frá Róm árið 1054.
Ekki er þess að vænta að kirkjurnar sameinist á ný en ferðalag Kirills til S-Ameríku er einnig sagt útspil Pútíns forseta Rússlands til þess að bæta ímynd landsins.
Fyrir fundinn hitti Frans forseta Kúbu, Raul Castro, á flugbrautinni á Jose Marti flugvelli í Havana áður en hann hélt á fund Kirills. Þeir áttu um tveggja tíma fund og búist er við að þeir skrifi undir sameiginlega yfirlýsingu gegn ofsóknum á kristnu fólki á stöðum eins og Sýrlandi og Írak.
Frans, sem er Argentínumaður, fer næst til Mexíkó en hann hefur sagst sérstaklega áhugasamur um að heimsækja Basilíku okkar lafði Guadalupe í Mexíkóborg. Hann mun heimsækja landamærasvæði Mexíkó í sunnan- og norðanverðum héruðum landsins til þess að undirstrika samúð sína með fólki sem flýr fátækt og ofsóknir.
Uppfært 22:28: Forstöðumenn kirkjanna kölluðu sameiginlega eftir fundinn eftir endurheimtri einingu kristindóms og áríðandi aðgerðum til bjargar kristnu fólki sem stafar ógn af ofbeldi í miðausturlöndum.
„Við köllum á alþjóðasamfélagið að taka nauðsynleg skref til þess að koma í veg fyrir að kristnir menn verði áfram reknir úr miðausturlöndum. Í Sýrlandi og Írak hefur ofbeldi þegar kostað þúsundir lífið og skilið milljónir eftir heimilis- og bjargarlaust,“ sagði í yfirlýsingunni.