Um það bil 150 þúsund mörgæsir á Suðurskautslandinu hafa dáið eftir að ísjaki á stærð við Rómarborg festist nærri byggð þeirra. Í kjölfarið hafa þær neyðst til að ganga 60 kílómetra til sjávar í leit að fæðu.
Mörgæsirnar, sem búið hafa við Denisonhöfða í Commonwealthflóanum, höfðu vanist því að lifa nærri stóru vatnshloti. En árið 2010 festist risavaxinn ísjaki, um 2900 ferkílómetra að stærð, í flóanum. Hefur mörgæsabyggðin verið landlukt upp frá því.
Hin 60 kílómetra langa ganga til sjávar hefur haft hrikalegar afleiðingar fyrir mörgæsirnar. Árið 2011 voru þær um 160 þúsund talsins en nú eru þær aðeins tíu þúsund. Þetta sýnir ný rannsókn sem Rannsóknarstofnun loftslagsbreytinga við háskólann í New South Wales gerði. Vísindamenn spá því að byggðin verði horfin innan tuttugu ára nema ísjakinn losni úr flóanum, samkvæmt umfjöllun The Guardian.