Hart var tekist á þegar frambjóðendur repúblikana mættust í kappræðum í forkosningum Repúblikanaflokksins í nótt. Tekist var á um bandaríska utanríkisstefnu, framtíð hæstaréttar Bandaríkjanna í umræðum þar sem frambjóðendurnir voru óstýrilátir og umræðan á tjá og tundri.
Forkosningar hafa þegar farið fram í Iowa og New Hampshire. Nú beina menn spjótum sínum að Suður-Karólínu fyrir 20. febrúar, þegar næstu forskosningar fara fram.
Donald Trump, sem leiðir í skoðanakönnunum, reifst harkalega við þá Ted Cruz, ríkisstjóra Texas, og Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóra Flórída, og áhorfendur tóku virkan þátt í umræðunni, annað hvort með því að baula á frambjóðendur eða klappa fyrir þeim.
John Dickerson, hjá sjónvarpsstöðinni CBS, var fundarstjóri, en hann lenti í mesta basli með að stýra umræðunni. „Við eigum í hættu á að þetta endi ofan í forarpytt,“ sagði Dickerson.
Meðal þess sem tekist var á um var andlát hæstaréttardómarans Antonin Scalia og hver ætti að taka við af honum. Umræðan í tengslum við það fór um víðan völl, m.a. var rætt um réttindi samkynhneigðra og fóstureyðingar.
Þá hét Trump því að hætta að nota ljót blótsyrði í kosningabaráttu sinni.
Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður frá Flórída, sótti í sig veðrið í kappræðunum eftir að hafa fallið í skuggann af öðrum frambjóðendum í fyrri umræðum.
Hann reifst við Cruz um hvernig sé hægt að bæta innflytjendalöggjöfina. Rubio sagði að breyttar áherslur Cruz varðandi innflytjendamál sýndu fram á hvað hann væri óheiðarlegur.
John Kasich, ríkisstjóri Ohio, hélt áfram að leggja áherslu á jákvæð skilaboð og fordæmdi aðra frambjóðendur fyrir að stunda síendurteknar árásir á meðframbjóðendur sína.
Þá sagðist Trump vera reiðubúinn að vinna með bandaríska þinginu að því að refsa fyrirtækjum sem færa verksmiðjur og störf til Mexíkó.