Líkur á vopnahléi fara dvínandi

Mynd úr safni frá Latka í Sýrlandi.
Mynd úr safni frá Latka í Sýrlandi. AFP

Vonir um að af vopnahléi verði í Sýrlandi fara dvínandi í ljósi þess að Tyrkir ákváðu að halda áfram árásum sínum á hermenn Kúrda í norðurhluta Sýrlands og Bandaríkjamenn krefjast þess að Rússar láti af loftárásum sínum á uppreisnarmenn í landinu.

AFP-fréttaveitan greinir frá en leiðtogar helstu ríkja heims gerðu með sér samkomulag í Munchen á föstudaginn var um að koma á vopnahléi í Sýrlandi, sem átti að hefjast á næstu dögum.

Þrátt fyrir tilraunir Bandaríkjamanna og Frakka hafa Tyrkir ekki látið af árásum sínum gegn Kúrdum. Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, sagði til að mynda í síma við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að Tyrkir ætli að halda áfram árásum sínum gegn Lýðræðissambandsflokki Kúrda (PYD). Er það vegna tengsla þeirra við Verkamannaflokk Kúrda, PKK, en PKK hefur eldað grátt silfur við Tyrki á undanförnum áratugum.

Í yfirlýsingu frá Davutoglu í kjölfar símtals hans og Merkel segir að hann hafi upplýst kanslarann um að tyrknesk stjórnvöld hyggist ekki ætla að leyfa PYD að halda úti árásargjarni hegðun og hafi öryggissveitir Tyrkja því svarað Kúrdum með þeim hætti sem þeir töldu nauðsynlegt. Sagði hann ennfremur að Tyrkir hyggist ekki láta af slíkum svörum.

Spennan í aðdraganda fyrirhugaðs vopnahlés undirstrikar hversu ólíka hagsmuni er að finna innan sameiginlega hersins, undir forystu Bandaríkjamanna. Hernum er ætlað að brjóta hryðjuverkasamtökin Ríki íslams á bak aftur í Sýrlandi og Írak.

Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands.
Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert