Meira í húfi eftir fráfall Scalia

Andlát Scalia veldur því að um meira er að tefla …
Andlát Scalia veldur því að um meira er að tefla í forsetakosningunum vestanhafs. AFP

Áður en Hvíta húsið gat staðfest andlát hæstaréttardómarans Antonin Scalia og jafnvel áður en fáninn við byggingu réttarins hafði verið dreginn í hálfa stöng voru þegar hafnar miklar vangaveltur um hversu mikla andstöðu þingið muni veita Barack Obama Bandaríkjaforseta við tilnefningu nýs dómara.

Stóllinn sem Scalia hafði vermt síðan árið 1986, þegar Ronald Reagan þáverandi forseti skipaði hann dómara við réttinn, mun nú reynast prófsteinn á þann litla samstarfsvilja sem ríkt hefur undanfarið báðum megin gangsins á Bandaríkjaþingi. Öldungadeild þingsins, þar sem 54 af 100 þingmönnum koma úr röðum repúblikana, þarf að samþykkja hvern þann sem Obama ákveður að tilnefna með að minnsta kosti 60 atkvæðum.

Næsti forseti fær einstakt tækifæri

Kosningabaráttan sem nú er í algleymingi vestanhafs hefur hingað til þótt hafa aukið vægi þar sem líkur eru á að fleiri stólar dómara við réttinn verði yfirgefnir á komandi árum. Scalia var enda einn af fjórum dómurum sem eru eldri en 75 ára, en samkvæmt lögum skulu réttinn skipa níu dómarar. Nú er þó enn meira í húfi.

Helstu öfl innan beggja flokka vita það að næsta forseta mun líklega gefast einstakt tækifæri til að móta dómstólinn eftir sínum hugmyndum. Áður en Scalia féll frá sátu þar fimm dómarar sem tilnefndir voru af forsetum úr röðum repúblikana og þótti Scalia þeirra íhaldssamastur.

Með hjálp hins óútreiknanlega dómara Anthony Kennedy, sem einnig var skipaður af Ronald Reagan en þykir að mati repúblikana hafa svikið lit síðan þá, hafa vinstriöflin átt þónokkra sigra fyrir réttinum á undanförnum árum þar sem Kennedy átti oddaatkvæðið.

Barack Obama Bandaríkjaforseti minntist Scalia í sérstakri ræðu í Kaliforníu …
Barack Obama Bandaríkjaforseti minntist Scalia í sérstakri ræðu í Kaliforníu í gær. AFP

Rétturinn gæti tvístrast í tvo helminga

Dómstóllinn reitti marga repúblikana til reiði þegar hann staðfesti lögmæti hjónabanda samkynhneigðra og heilbrigðislöggjafarinnar sem nefnd hefur verið „Obamacare“. Þá blöskraði mörgum vinstrimönnum þegar rétturinn ógilti lög sem höfðu þangað til bannað ótakmarkaðar fjárveitingar fyrirtækja til frambjóðenda í kosningum.

Næstu mánuði munu fleiri áskoranir koma á borð dómaranna þar sem reynir á lögmæti þeirra endurbóta sem Obama hyggst gera í málefnum innflytjenda og loftslagsbreytinga. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur þegar frestað þeim aðgerðum sem Obama hefur reynt að knýja fram en þær bíða enn dóms, samkvæmt ítarlegri umfjöllun The Guardian.

Fari svo að dæmt verði í málunum áður en skarð Scalia er fyllt á ný gæti rétturinn tvístrast í tvo jafna helminga, sem yfirleitt gæti aldrei gerst, eða þá að Kennedy gæti „svikið lit“ og gefið Obama þannig tvo tímamótasigra.

Frambjóðendur í forvali repúblikana þögðu í mínútu til minningar um …
Frambjóðendur í forvali repúblikana þögðu í mínútu til minningar um Scalia í kappræðum gærkvöldsins. AFP

Munu repúblikanar þreyja þorrann?

Leiðtogi repúblikana í öldungardeildinni, Mitch McConnell, var fljótur að gefa út yfirlýsingu í gærkvöldi eftir að ljóst varð að Scalia var látinn.

„Almenningur í Bandaríkjunum á rétt á að hafa eitthvað að segja um val á þeirra næsta hæstaréttardómara. Þess vegna ætti ekki að fylla skarð Scalia fyrr en við fáum nýjan forseta.“

En ellefu mánaða bið felur í sér töluverða áhættu fyrir McConnell, sem má búast við miklum þrýstingi um að koma til móts við Obama um val á dómara sem hallast til hvorugrar fylkingarinnar. Ekki aðeins eru helstu frambjóðendur repúblikana, Donald Trump og Ted Cruz, næstum álíka fjarlægir flokksfélögum sínum og þau Hillary Clinton og Bernie Sanders, heldur gætu demókratar einnig náð meirihluta í öldungadeildinni í kosningunum í nóvember.

Þá gætu þeir keyrt í gegn tilnefningu dómara sem væri framsækinn og þeirra gildum hliðhollur, og þannig ljósárum frá Scalia heitnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert