Réðst á gesti veitingahúss með sveðju

AFP

Lögreglumenn í Ohio í Bandaríkjunum skutu mann til bana sem hafði ráðist á fólk á veitingastað vopnaður sveðju. 

Atvikið átti sér stað sl. föstudag í borginni Columbus. Maðurinn, Mohamed Barry, flúði í kjölfar árásarinnar og hófu lögreglumenn eftirför. Hún endaði með því að hann Barry var skotinn til bana. Hann var þrítugur. 

Fram kemur á vef BBC að fólkið sem særðist í árásinni, þrír karlar og ein kona, hafi verið flutt á sjúkrahús. Þau hlutu ekki alvarlega áverka. 

Lögregluvarðstjórinn Rich Weiner segir að árásin hafi verið tilefnislaus. Lögreglan í Columbus vinnur að rannsókn málsins ásamt alríkislögreglunni.

BBC segir að Barry hafi farið inn á veitingastaðinn fyrr um kvöldið. Þá hafi hann rætt við starfsmann og farið. Um hálftíma aftur sneri hann aftur á staðinn. Þegar inn var komið gekk hann að karli og konu sem sátu við borð skammt frá innganginum og lét til skarar skríða. 

Starfsmenn og gestir á veitingastaðnum reyndu að stöðva árásarmanninn með því að kasta í hann stólum.

Karen Bass, sem var gestur á staðnum, segir í samtali við fjölmiðla að mikil skelfing hafi gripið um sig og maður hafi legið blóðugur á gólfi staðarins. Önnur kona segist hafa flúið með börn sín yfir á annan veitingastað eftir að árásin hófst. 

Lögreglan segist hafa reynt að stöðva Barry með rafstuðbyssu en án árangurs. Lögreglumaður skaut Barry þegar hann reyndi að höggva til þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert