Í nánu sambandi við gifta konu

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, þegar hann heimsótti Jóhannes Pál …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, þegar hann heimsótti Jóhannes Pál páfa II í Páfagarði. mbl.is/Emilía Björg Björnsdóttir

Jóhannes Páll páfi II átti í nánu sambandi við gifta konu og stóð það yfir í rúm þrjátíu ár. Þetta kemur fram í nýrri heimildarmynd BBC þar sem bréf Jóhannesar til Önnu –Teresu Tymieniecka eru afhjúpuð.

Í myndinni er því ekki haldið fram að páfinn fyrrverandi hafi rofið eið sinn um skírlífi. Engu að síður virðast bréfin sýna að miklar tilfinningar hafi verið á milli þeirra.

Jóhannes og Anna fóru saman í útilegur og skíðaferðir, auk þess sem þau fóru í göngutúra.

„Gjöf frá guði“

Í einu bréfanna frá því í september 1976 kallar hann hana „gjöf frá guði“.

„Elsku Teresa. Þú skrifar um togstreitu en ég á engin svör við orðum þínum.“

Hann skrifaði einnig: „Á síðasta ári var ég einnig að leita að svari við orðunum, „ég tilheyri þér“, og loksins, áður en ég yfirgaf Pólland, fann ég rétta svarið, herðaklæði.“

Herðaklæði var klæðnaður sem var notaður í klaustrum og Jóhannes gaf  Tymieniecka sín klæði áður en hann varð páfi.

„Í þeirri vídd er ég tek á móti þér og finn fyrir þér alls staðar, í alls kyns kringumstæðum, þegar þú ert nærri og þegar þú ert langt í burtu,“ skrifaði hann.

Ekki elskendur en meira en vinir

Edward Stourton, blaðamaður BBC sem gerði heimildarmyndina, sagði að yfir 350 bréf hefðu fundist á þjóðarbókasafninu í Póllandi. Fyrstu bréfin voru dagsett 1973 og þau síðustu nokkrum mánuðum fyrir dauða Jóhannesar árið 2005.

„Ég myndi segja að þau hafi verið meira en vinir en samt ekki  elskendur,“ sagði Stourton. „Eitt af því áhugaverða sem má lesa í þessum bréfum en baráttan við að halda áfram þessu sambandi þar sem tilfinningum og heimspekilegum vangaveltum var blandað saman innan þeirra takmarkana sem kristin gildi settu þeim.“

BBC hefur aðeins fengið að sjá bréfin sem Jóhannes skrifaði en ekki þau sem Tymieniecka skrifaði honum til baka. Hún lést árið 2014.

Jóhannes var páfi frá 1978 til 2005 og var gerður að dýrlingi innan kaþólsku kirkjunnar eftir dauða sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert