Allt að fimmtíu hafa látist í eldflaugaárásum á skóla og sjúkrahús í norðurhluta Sýrlands. Frakkar og Tyrkir segja að loftárásir á sjúkrahús þar séu stríðsglæpir. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.
Tyrkneska utanríkisráðuneytið sakar Rússa um að bera ábyrgð á árásunum en yfirvöld í Moskvu hafa ekki enn svarað ásökunum Tyrkja. Á sama tíma hefur forseti Sýrlands, Bashar al-Assad efasemdir um vopnahlé sem taka á gildi síðar í vikunni. Assad segir að vopnahléssamningurinn geri ekki ráð fyrir því að allar stríðarndi fylkingar leggi niður vopn og efast um að nokkur tök séu á því að þau skilyrði sem sett eru fyrir vopnahléinu náist innan viku.
Að minnsta kosti tólf voru drepnir í Azaz og nágrenni þegar flugskeyti hæfðu tvö sjúkrahús og skóla.
Í Maarat al-Numan í Idlib héraði var sjúkrahús sem samtökin Læknar án landamæra hafa stutt við jafnað við jörðu. Þar létust sjö og átta er enn saknað í rústum hússins, samkvæmt upplýsingum frá samtökunum sem segja árásina úthugsaða. Telja samtökin að annað hvort Rússar eða sýrlensk stjórnvöld standa á bak við árásina.
Sendiherra Sýrlands í Moskvu, Riad Haddad, segir aftur á móti að Bandaríkin beri ábyrgð á árásunum.