Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins hafa náð samkomulagi um breytingar á því, en þar með fær Bretland meðal annars sérstaka stöðu innan sambandsins. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, setti tíst á Twitter þar sem hann sagðist hafa samið við Evrópusambandið um þetta og að hann myndi kynna niðurstöðurnar fyrir ríkisstjórninni á morgun. Gert er ráð fyrir fréttamannafundi um málið fljótlega.
Dalia Grybauskaite, forseti Litháen, sagði fyrst frá fréttum af málinu með að tísta „Samkomulag #UKinEU klárað. Dramað búið.“
Viðræðurnar hafa staðið yfir í Brussel undanfarna tvo daga. Samkvæmt upplýsingum Reuters er horft til þess að Bretland verði undanþegið grundvallarhugmyndum ESB um nánari samvinnu ríkja sambandsins. Þá mun Bretland geta neitað þeim sem eru nýlega komnir til landsins frá öðrum ESB löndum um réttindi. Gildir þetta í fjögur ár frá komu fólks.
Þá mun Bretland geta haft yfirumsjón áfram með fjármálastofnunum í landinu til að passa upp á fjármálastöðugleika.