Brottvísun Myrtle Cothill, 92 ára konu, frá Bretlandi til Jóhannesarborgar í Suður-Afríku hefur verið frestað. Konan, sem glímir við hjartasjúkdóma, er farin að missa sjónina og getur ekki gengið án aðstoðar, kom til Bretlands fyrir tveimur árum til að búa hjá dóttur sinni.
Konan óskaði eftir dvalarleyfi í Bretlandi en beiðni hennar var hafnað.
Cothill fæddist í Suður-Afríku árið 1924. Eiginmaður hennar var hermaður í breska hernum og lést fyrir 65 árum, fjórum mánuðum áður en dóttir þeirra kom í heiminn. Cothill vildi búa áfram í heimalandi sínu en vinir hennar höfðu samband við dóttur hennar þar sem hún þurfti aðstoð við að borða og þvo sér.
Til stóð að flytja konuna úr landi síðastliðinn þriðjudag. Seint á föstudagskvöld fyrir rúmri viku fengu lögfræðingar hennar aftur á móti símtal með upplýsingum um að brottvísuninni hefði verið frestað um óákveðinni tíma.
Dóttir Cothill, Mary Wills, er afar fegin en hún hafði haft áhyggjur af móður sinni. Sagðist hún efast um að móðir sín réði við flugferðina og að búa ein í Suður-Afríku. Þá hafði Cothill sagt að hún vildi frekar deyja en vera vísað úr Bretlandi. Eiginmaður Will glímir við Parkinsons-sjúkdóminn og því eiga hjónin erfitt með að fara með Cothill til Suður-Afríku.