„Þú mátt vera stolt. Hann var eins og ljón,“ stóð í smáskilaboðum sem Geraldine Henneghien fékk send frá Ríki íslams. Sonur hennar, Anis, var drepinn í búðum hryðjuverkasamtakanna í Sýrlandi.
Foreldrar Anis Abu Brahms segja að hann hafi ætlað sér að verða hnykkjari en ákveðið að vinna í eitt ár áður en hann hæfi námið. En Anis, sem var átján ára, fékk enga vinnu og telja foreldrar hans að ástæðan hafi verið sú að hann bar marokkóskt nafn hafi þar ráðið miklu en fjölskyldan var búsett í Brussel.
Í umfjöllun Aftenpostn kemur fram að fjölskylda hans sé íslamstrúar en mjög vestræn í skoðunum sínum. Það breyttist hins vegar hjá Anis þegar hann fór að heimsækja nýja mosku átján ára gamall. Fjórum mánuðum síðar var hann farinn til Sýrlands að berjast með Ríki íslams.
Það var undir lok árs 2013 sem Anis fór að sækja nýju moskuna. Þar tók hann þátt í bænum fimm sinnum á dag og gagnrýndi foreldra sína fyrir að vera ekki nægjanlega heittrúaða. Í janúar 2014 fór hann frá Belgíu.
Móðir hans, Geraldine Henneghien, segist hata þá sem safni nýliðum fyrir hryðjuverkasamtökin. Því þeir hafi sjálfir ekki kjark til þess að fara og berjast en þess í stað hvetja þeir ungt fólk til dáða og senda það út í opinn dauðann.
Hún segir að lífið í búðum samtakanna hafi hins vegar ekki verið eins og Anis átti von á og að hann hafi viljað snúa aftur heim. Í viðtali við CBS segir hún að hann hafi beðið hana um að kaupa fyrir sig farmiða. Henneghien sagði við hann að það myndi hún gera með glöðu geði. Tveimur tímum síðar hafi hann hringt og sagt að hann myndi aldrei snúa aftur og að hann yrði áfram í Sýrlandi með bræðrum sínum.
Einn þeirra sem voru með Anis í flugvélinni til Sýrlands var Brahim Abaaoud en hann sprengdi sig upp í hryðjuverkaárásinni í París í nóvember í fyrra. Móðir hans segir að hún sjái eftir því að hafa ekki beitt sér af meiri hörku gegn syninum á þessum tíma. Hún hefði átt að koma í veg fyrir að hann kæmist í burtu.
Henneghien hefur stofnað hóp með fleirum foreldrum ungmenna sem hafa farið til Miðausturlanda til að berjast með hryðjuverkasamtökum. Um fimmtíu foreldrar hittast í hverri viku á fundum í Molenbeek, úthverfi Brussel.
Blaðamaður Aftenposten hitti Henneghien að máli í hverfinu sem framleiðir hryðjuverkamenn, Molenbeek en talið er að árásin í París hafi verið skipulögð þar. Húsnæði er ódýrara í Molenbeek en víðast annars staðar í Brussel og fjölmargir innflytjendur búa þar. Atvinnuleysi er mun meira en gengur og gerist í Belgíu eða 40% og illa gengur að samlagast belgísku samfélagi. Sem sagt kjöraðstæður fyrir þá sem vilja safna nýliðum fyrir hryðjuverkasamtök.
Henneghien segir að fólk tali um Molenbeek sem uppeldisstöð öfgafullra íslamista en að hennar sögn er öfgavæðinguna að finna víða í Belgíu. Um 500 belgísk ungmenni hafa farið til Sýrlands að berjast frá árinu 2012. Hvergi annars staðar í Evrópu er hópurinn jafn fjölmennur.
„Sonur minn var ekki skrímsli. Hann var venjulegur drengur í leit að sjálfsvitund, tilgang með lífinu. Þetta er eitthvað sem getur gerst hvar sem er þar sem ungt fólk lendir á milli tveggja menningarheima eða er útilokað frá samfélaginu. Við megum ekki vera einföld,“ Henneghien í viðtalinu.
Enn er hægt að lesa Twitterfærslur Anis Abu Brahms sem hann ritar undir nafninu Abou Omar Brams. Þar birtir hann færslur tendgar árásunum í París í janúar í fyrra, Boko Haram í Nígeríu og Abu Sayyaf á Filippseyjum. Hann sést sjálfur á myndum með fleiri ungum mönnum frá Molenbeek. Einn þeirra er Abdelhamid Abaaoud sem er sá sem skipulagði hryðjuverkin í París í nóvember.
Það var síðan í febrúar 2015 sem Geraldine Henneghien fékk send smáskilaboð um andlát sonar síns. Fyrri skilaboðin voru: Ertu móðir Anis Abu Brahms? Hún svaraði játandi og fékk þá eftirfarandi skilaboð: „Við þurfum að greina þér frá því að sonur þinn lést í árásinni á Deir ez-Zor flugvöllinn. Þú mátt vera stolt, Hann var eins og ljón.“