Maðurinn sem myrti þrjár manneskjur og særði sautján í skotárás í Kansas í gær hafði skömmu áður verið dæmdur í nálgunarbann. Talið er líklegt að dómurinn hafi verið kveikjan að árásinni.
Hún var gerð í sláttuvélaverksmiðju í bænum Hesston, norður af borginni Wichita. Árásinni lauk þegar lögreglan skaut byssumanninn til bana. Hann hét Cedric Larry Keith Ford, 38 ára, og var starfsmaður verksmiðjunnar.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hringdi í bæjarstjórann í Hesston og vottaði samúð sína vegna árásarinnar. Hún var gerð innan við viku eftir að leigubílstjóri í Kalamazoo-sýslu í Michigan skaut sex manns til bana, að því er virðist handahófskennt.
„Þessi tvö samfélög í Bandaríkjunum eru frá sér numin af sorg,“ sagði Obama í réðu sem hann hélt í Jacksonville í Flórída. „Við megum ekki vera dofin gagnvart þessu.“
Eins og forsetinn hefur gert eftir skotárásir sem þessar, hvatti hann til hertra aðgerða gegn byssuofbeldi í Bandaríkjunum. Hann hvatti fjölmiðla til að fjalla ítarlega um byssulöggjöf landsins, sem Obama vill breyta.
„Einu sinni í viku eru þessar árásir gerðar og þetta er hætt að vera áberandi í fréttunum. Því verður að breyta,“ sagði hann.
Samkvæmt fréttum bandarískra miðla var Ford nýfluttur á svæðið frá Miami. Hann var með langa sakaskrá, þar á meðal fyrir ólöglega byssueign.
Um 30 þúsund manns deyja á ári hverju af völdum byssuofbeldis í Bandaríkjunum. Alls voru 330 árásir gerðar í fyrra þar sem skotið var á fjölda fólks.