Kyrrlátt í Sýrlandi eftir vopnahlé

Sergei Rudskoi, yfirmaður í hersveitum Rússa, tjáir sig um stöðu …
Sergei Rudskoi, yfirmaður í hersveitum Rússa, tjáir sig um stöðu mála á fundi sem var haldinn í tilefni vopnahlésins. AFP

Kyrrð og ró hefur svifið yfir vötnunum víða um Sýrland á fyrsta degi vopnahlésins þar í landi en það tók gildi á miðnætti.

Skotárásir í úthverfum í kringum Damaskus, höfuðborg Sýrlands, og í borginni Aleppo hættu á miðnætti eftir að Rússar höfðu ítrekað varpað sprengjum á svæði uppreisnarmanna víðsvegar um landið. Rússar hættu einnig sínum loftárásum.

Þetta er fyrsta hléið sem gert er á átökum í Sýrlandi síðan borgarastyrjöldin hófst fyrir fimm árum. Um 270 þúsund manns hafa fallið í stríðinu og næstum hálf þjóðin hefur þurft að yfirgefa heimili sín.

„Ég get ekki leynt því að ég er mjög ánægður með að stríðið sé hætt, þó það væri ekki nema í nokkrar mínútur,“ sagði hermaðurinn Abdel Rahman Issa, sem er 24 ára, á vígvelli í útjaðri Damaskus.

„Ef þetta heldur svona áfram þá getum við kannski farið heim.“

Þessi mynd sýnir sprengjuárás sem franskar hersveitir gerðu á skotmörk …
Þessi mynd sýnir sprengjuárás sem franskar hersveitir gerðu á skotmörk Ríkis íslams áður en vopnahléið hófst. AFP

Staffan de Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna, sagði að friðarviðræður myndu halda áfram 7. mars ef vopnahléið heldur og fleiri hjálpargögn verða send til landsins en hart hefur verið greint á um hjálpargögnin í viðræðunum.

Sérstök verkefnasveit mun hittast í Genf í dag en búið er að mynda kerfi til að takast á við brot á vopnahléinu. Sveitin á að fylgjast með því sem gerist á jörðu niðri í Sýrlandi.

Yfirvöld í Rússlandi og Bandaríkjunum, sem stjórna verkefnasveitinni, hafa einnig sett upp skrifstofur til að fylgjast með vopnahléinu, auk þess sem aðgerðarmiðstöð Sameinuðu þjóðanna fylgist vel með.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert