Clinton og Sanders ynnu Trump

Öldungadeildarþingmaðurinn frá Vermont, Bernie Sanders, færi nokkuð létt með helstu …
Öldungadeildarþingmaðurinn frá Vermont, Bernie Sanders, færi nokkuð létt með helstu frambjóðendur repúblikana ef kosið yrði á milli þeirra til forseta. AFP

Þrátt fyrir gríðarlegan meðbyr sem auðjöfurinn Donald Trump virðist njóta bendir ný skoðanakönnun CNN til þess að jafnt Hillary Clinton sem Bernie Sanders hefðu hann undir ef kosið yrði á milli þeirra til forseta Bandaríkjanna. Clinton ætti erfiðara uppdráttar gegn öðrum mögulegum frambjóðendum repúblikana.

Könnunin var gerð á meðal skráðra kjósenda og sýnir að Clinton fengi 52% atkvæða gegn 44% ólíkindatólsins Trump ef þau yrðu forsetaframbjóðendur flokka sinna eins og margt bendir til að. Sanders fengi 55% gegn 43% Trump.

Þegar aðrar sviðsmyndir eru kannaðar stendur fyrrverandi utanríkisráðherrann hins vegar verr að vígi. Þannig myndi Clinton tapa í keppni gegn öldungadeildarþingmanninum Marco Rubio. Hann nýtur 50% stuðnings gegn 47% Clinton. Erkiíhaldsmaðurinn Ted Cruz myndi einnig veita Clinton harða keppni en þau mælast nær jöfn í könnuninni. Cruz hefur 49% gegn 48% Clinton þegar kjósendur eru beðnir um að gera upp á milli þeirra.

Sanders, sem hlýtur hæst hlutfall jákvæðra umsagna af öllum frambjóðendum sem spurt var um í könnuninni, færi hins vegar nokkuð létt með þá Cruz og Rubio. Hann myndi sigra Cruz með 17 prósentustiga mun og Rubio með 8 stiga mun.

Gert er ráð fyrir að línur skýrist verulega í framboðsmálum flokkanna í dag þegar kjósendur í ellefu ríkjum greiða atkvæði í forvölum þeirra á svonefndum ofurþriðjudegi. Líklegt er að fækka muni í hópi frambjóðenda hjá repúblikönum þegar niðurstöðurnar liggja fyrir og einhverjir þeirra kjósa að draga sig í hlé. Kannanir benda til þess að Trump haldi sigurgöngu sinni áfram í forvali Repúblikanaflokksins.

Frétt CNN af könnuninni

Æstir stuðningsmenn Donalds Trump í Georgíu.
Æstir stuðningsmenn Donalds Trump í Georgíu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert