Liðsmenn Ríkis íslams hafa tekið átta hollenska liðsmenn samtakanna af lífi sem voru sakaðir um að hafa ætlað að gerast liðhlaupar.
Guardian hefur þetta eftir Abu Mohammad, félaga í samtökum borgaralegra fréttamanna í Raqqa (Raqqa is Being Slaughtered Silently (RBSS). Hann segir á Twitter í gær að RBSS hafi gögn sem sýna að aftökurnar fóru fram á föstudaginn í Maadan í Raqqa héraði.
Hollendingarnir voru sakaðir um að hafa ætlað að reyna að flýja og gera uppreisn. Áður hefur verið greint frá því að titringum sé á milli hollenskra skæruliða, sumir þeirra eru ættaðir frá Marokkó, og forvígismanna Ríkis íslams.
Þrír hollenskir skæruliðar til viðbótar voru handteknir af liðsmönnum Ríkis íslams í Írak sakaðir um að ætla að flýja. Einn þeirra var barinn til bana við yfirheyrslurnar, samkvæmt RBSS.
Mannúðarsamtökin Syrian Observatory for Human Rights hafa ekki staðfest fréttina um aftökuna á átta Hollendingum en segjst hafa heimildir fyrir því að þrír evrópskir skæruliðar af norðurafrískum uppruna hafi verið teknir af lífi í Wilayet al-Furat –svæði á landamærum Sýrlands og Íraks. Guardian hefur eftir hollensku öryggislögreglunni að 200 Hollendingar, þar af 50 konur, hafi gengið til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi og Írak.