Umdeildur ráðherra settur í umhverfismálin

Lars Løkke Rasmussen kynnti í gær breytingar á dönsku ríkisstjórninni. …
Lars Løkke Rasmussen kynnti í gær breytingar á dönsku ríkisstjórninni. Esben Lunde Larsen er nýr umhverfis- og matvælaráðherra, eftir að Eva Kjer Hansen sagði af sér um helgina. Ulla Tørnæs tekur við starfi menntamálaráðherra af Larsen. AFP

Forsætisráðherra Danmerkur Lars Løkke Rasmussen skipaði Esben Lunde Larsen í embætti umhverfis- og matvælaráðherra, eftir að Eva Kjer Hansen sagði af sér um helgina eftir illdeilur milli flokka bláu blokkarinnar varðandi frumvarp til laga um landbúnaðarmál.

Esben Lunde Larsen mun láta af embætti menntamálaráðherra og tekur Ulla Tørnæs við starfinu í hans stað. Það þýðir að hún mun hætta þingmennsku á Evrópuþinginu og Morten Løkkegard þingmaður á danska þinginu mun flytjast til Brussel í hennar stað. Í stað Løkkegards á danska þinginu kemur varaþingmaðurinn Jakob Engel-Schmidt.

Larsen er ekki óvanur því að vera milli tannanna á fólki en hann hefur meðal annars komist í fréttirnar fyrir að halda því fram að guð hafi skapað jörðina og að hafa ekki tekið af­stöðu til þess hversu göm­ul hún sé. Hann hefur einnig látið hafa eftir sér að það eigi að kalla alla blökku­menn „negra“.

Larsen hefur verið sakaður um að hafa stolið hluta af doktorsritgerð sinni og eins þykir ferilskrá hans eitthvað málum blandin.

Eva Kjer Hansen sagði af sér áður en vantraust var borið upp af vinstriflokkunum en þeir höfðu óskað eftir því að tillaga um vantraust á hana yrði borin undir atkvæði á þinginu eftir að Íhaldsflokkurinn lýsti því yfir að hann treysti henni ekki lengur til að gegna embættinu.

Søren Pape Poulsen, formaður Íhaldsflokksins, eins flokkanna sem styðja minnihlutastjórn mið- og hægriflokksins Venstre, áréttaði fyrir helgi að þingmenn flokksins myndu greiða atkvæði með vantrauststillögunni.

Íhaldsflokkurinn og stjórnarandstaðan saka Hansen um að hafa veitt danska þinginu rangar upplýsingar í umræðu um landbúnaðarfrumvarp stjórnarinnar. Íhaldsflokkurinn studdi þó frumvarpið þegar þingið samþykkti það fyrir helgi.

Umhverfisráðherra segir af sér

Hart deilt í danskri pólitík

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert