Rökræddu um reðurstærð Trump

Donald Trump (t.v.) og Ted Cruz (t.h.) takast á í …
Donald Trump (t.v.) og Ted Cruz (t.h.) takast á í sjónvarpskappræðunum í gærkvöldi. AFP

Stærð kynfæra Donalds Trump var fyrsta mál á dagskrá sjónvarpskappræðna frambjóðenda í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Trump fullvissaði áhorfendur um að ekkert skorti upp á reðurstærð hans.

Keppinautur Trump, Marco Rubio, hefur undanfarið gert grín að höndum auðjöfursins sem þykja óvenjulitlar. „Þið vitið hvað er sagt um menn með litlar hendur,“ sagði Rubio við stuðningsmenn sína nýlega og gaf í skyn að getnaðarlimur Trump væri í smærra lagi.

Í kappræðunum á Fox-sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi sýndi Trump áhorfendum hendur sínar og sagði að aðdróttanir um að eitthvað annað væri smávaxið væru ekki á rökum reistar.

„Ég ábyrgist að það er ekkert vandamál þar,“ sagði Trump við mikla kátínu áhorfenda í sal.

Trump brást einnig við fordæmingu Mitts Romney, síðasta forsetaframbjóðanda repúblikana, á honum í gær. Romney kallaði Trump svikahrapp sem reyndi að hafa bandarískan almenning að fífli í ræðu. Trump skaut á móti og sagði Romney skömm fyrir flokkinn og að hann hefði grátbeðið hann um stuðning fyrir forsetakosningarnar 2012 sem Romney tapaði fyrir Barack Obama.

Rubio og Ted Cruz deildu hart á Trump meðal annars vegna frétta um að hann hafi sagt ritstjórum New York Times að hann væri sveigjanlegur um hugmyndir sínar í innflytjendamálum fyrr á þessu ári. Trump hefur farið mikinn í kosningabaráttunni um að hann myndi senda alla innflytjendur sem ekki hafa tilskilin leyfi úr landi.

Trump neitaði ekki fréttunum en sagðist ekki geta uppljóstrað um hvað honum og ritstjórunum fór á milli vegna trúnaðar.

„Birtu bara upptökurnar. Ef þú fórst í raun til Manhattan og sagðir: „Ég er að ljúga að bandarísku þjóðinni,“ þá á bandaríska þjóðin rétt á að vita það,“ sagði Cruz.

Frétt CNN af kappræðunum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert