„Munum hrifsa, hrifsa, hrifsa!“

Donald Trump
Donald Trump AFP

Fyrir nokkrum árum mislíkaði forsetaframbjóðanda flokks græningja í Kólumbíu við hóp háskólanema sem mótmæltu stefnu hans. Hann brást við með því að sýna þeim beran bossann, stundum yrði að nota óvenjulegar aðferðir, sagði hann. Svo langt hefur Donald Trump ekki enn gengið í sinni baráttu í Bandaríkjunum. En hann hikar aldrei við að ganga fram af andstæðingum sínum ef það dugar til að einoka fréttir fjölmiðla. Og kaffærir þá.

Trump virðist hafa tileinkað sér allar skoðanir sem fyrirfinnast, notar þær eftir hentugleikum. Og oft er grunnt á ofbeldishugsun og grimmd, hann notar hálfkveðnar vísur, klárar ekki setningar en allir vita hvað hann er að hugsa. Duflað er við rasisma, múslímahatur. Og rætt um yfirgang ríkja sem Trump segir að hafi stöðugt misnotað sér veiklyndi Obama og annarra bandarískra leiðtoga, þ.ám. í alþjóðaviðskiptum. Trump lofar að snúa við blaðinu.

„Við ætlum að vera gráðug fyrir Bandaríkin. Við munum hrifsa, hrifsa, hrifsa!“ sagði Trump nýlega á kosningafundi. Hann spilar mjög á strengi þeirra sem finnst að eitthvað mikið hljóti að vera að þegar Bandaríkin eru ekki lengur með sömu yfirburði í efnahagsmálum og þau hafa haft óslitið í meira en öld. Og tapa stöðugt styrjöldum í löndum sem venjulegt fólk vestra hefur aldrei heyrt um. Hann segist ætla að hætta öllu slíku. En efla samt herinn.

Tortryggni í garð þingsins er mikil vestra í báðum flokkum, innan við 15% treysta þingmönnum. Flestir segja þá spillta sérhagsmunaseggi. Bölsýni er útbreidd. Margir hvítir Bandaríkjamenn í lægri millistétt sjá ekki lengur fram á að gamli, ameríski draumurinn um endalaus tækifæri og hagsæld muni rætast fyrir þá. Þeim sem hafa ekki lokið nema skyldunámi, sem horfa á störf flutt úr landi, sjá innflytjendum og afkomendum þeirra veitt aukin réttindi og jafnvel umsvifalaus aðgangur að bótakerfum ríkisins finnst þeir skildir eftir. Og hvers vegna er það allt einu orðið skammarlegt í huga og tali margra stjórnmálamanna, fjölmiðla- og menntamanna að vera hvítur karlmaður í Bandaríkjunum, spyrja þeir. Er það sanngjarnt?

Trump höfðar mjög til þessara kjósenda en hann er líka með mest fylgi allra forsetaefna repúblikana hjá nánast öllum hópum. Körlum, konum, hvítum, svörtum, trúhneigðum og lítt trúuðum, menntuðum og ómenntuðum, efnuðum og fátækum. En rauði þráðurinn er að stuðningsmönnum hans finnst þeir ekki hafa haft nein áhrif. Þeir séu hunsaðir af ráðandi öflum, traðkað á þeim. Flokkurinn hafi svikið þá. Svo mikil eru bræðin og vonbrigðin að þeir vilja mann sem beinlínis hampar því að hann vilji vera grimmur og illur fantur. Auðmýkt, mildi og siðfágun eru ekki lengur eiginleikar sem þetta fólk vill sjá í forseta sínum.

Ráðvillt flokksforysta

Engu virðist skipta þótt fjármálafurstar eins og hinir frægu Koch-bræður, Sheldon Adelson og aðrir auðkýfingar beiti sér gegn Trump, stór hluti flokksins hlustar alls ekki lengur á þá.

Flokksforysta repúblikana hefur aldrei fengið aðra eins útreið. Forystumennirnir eru í losti, sumir segjast ætla að kjósa demókrata frekar en Trump. En þeir munu vafalaust halda fyrir nefið og sameinast um Trump ef hann verður útnefndur. Allt er betra en Clinton í þeirra augum.

David Frum, ritstjóri hins þekkta tímarits The Atlantic, var í eina tíð náinn ráðgjafi George W. Bush forseta og ræðuskrifari hans. Frum segir að uppgangur Trumps sé merki um hrein og klár stéttaátök innan repúblikanaflokksins. Flokkurinn verði að átta sig á einu: Óbreyttir flokksmenn séu ekki í reynd hlynntir því að skera niður velferðarkerfið, það gagnist þeim of vel. Og repúblikanar eigi að hætta að berjast gegn almennum heilbrigðistryggingum Obama en lagfæra kerfið í staðinn.

„Lækkið hæstu skattana minna og notið peningana til að hækka bætur til vinnandi fólks í millitekjuhópum,“ segir Frum. „Mótið innflytjendastefnu sem eflir launin en grefur ekki undan þeim. Hafið meiri áhyggjur af reglum sem auka við auðæfi þeirra sem þegar eiga mikið en minni áhyggjur af reglum sem minnka svigrúm til að stunda fjármálabrask.“

Frum er talinn hægrisinnaður repúblikani. En hann segir flokkssystkinum sínum að horfa til þess hvernig margir nýir hægriflokkar í Evrópu, sem kenndir eru við lýðskrum, leggi nánast allir áherslu á stuðning við velferðarkerfið.

Ef enginn sigrar...

Margir hófsamir kjósendur eru í öngum sínum yfir framgangi Trumps. Auðkýfingurinn Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri í New York, veltir því fyrir sér að bjóða sig fram til forseta. Ef, öllum á óvart, atkvæði skiptust þannig að enginn hlyti tilskilinn fjölda kjörmanna, 270, fengi fulltrúadeild þingsins það hlutverk að kjósa forseta. Þar hafa repúblikanar öflugan meirihluta og nokkuð ljóst að þeir myndu ekki kjósa Trump.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert