Bandaríkin og Suður-Kórea eru í þann mund að hefja stærstu sameiginlegu heræfingar sínar til þessa en mikill spenna ríkir á Kóreuskaga.
Yfir 300 þúsund suðurkóreskir hermenn og 15 þúsund bandarískir munu taka þátt í æfingunum samkvæmt BBC sem hefur fréttirnar eftir Yonhap-fréttastofunni.
Varnarmálaráðherra Suður-Kóreu, Han Min-koo hefur sagt að æfingarnar verði tvöfalt umfangsmeiri en í fyrra. Aðeins eru fáeinir dagar frá því Sameinuðu þjóðirnar samþykktu nýjar refsiaðgerðir gagnvart Norður-Kóreu.
Spenna milli ríkjanna hefur aukist mikið frá því Norður-Kórea gerði kjarnorkutilraunir í janúar sem fylgt var eftir með eldflaugaskoti. Ríkið svaraði tilkynningu um refsaðgerðirnar með yfirlýsingu um að verið væri að undirbúa kjarnavopn til fyrirbyggjandi notkunar og með því að skjóta eldflaugum á haf út.
Sérfræðingar í hernaðarmálum efast um að ríkið búi yfir kunnáttunni til að búa flaugar sínar með kjarnorkusprengjum samkvæmt BBC.
Heræfingunum, sem hefjast á morgun og standa yfir til 30. apríl, er ætlað að vara Norður-Kóreu við að ögra ríkjunum. Norður-Kórea álítur þennan árlega viðburð æfingu fyrir innrás.
Bandaríkin og Suður-Kórea hófu formlegar viðræður á föstudag um að loftvarnarkerfi Bandaríkjanna verði tekið í notkun á Kóreuskaga. Norður-Kórea, Rússland og Kína hafa mótmælt þeim fyrirætlunum harðlega og hefur Kína sagt kerfið ógna öryggi ríkisins og grafa undan kjarnorkuvörnum þess.