Táningur kveikti í sjálfum sér

Dorje Tsering var aðeins 16 ára gamall.
Dorje Tsering var aðeins 16 ára gamall. AFP

Hundruð syrgjandi Tíbeta tóku þátt í útför 16 ára námsmanns sem lést eftir að hafa kveikt í sjálfum sér til að mótmæla ofríki Kína. Dorje Tsering lést úr hjartaáfalli á fimmtudag eftir að hafa kveikt í sjálfum sér í hverfi fyrir tíbetska flóttamenn í borginni Dehradun í Indlandi.

Lík Tsering var flutt til Dharamsala, bæjar í hlíðum Himalajafjalla þar sem andlegur leiðtogi Tíbeta, Dalai Lama, hefur hafst við síðan hann flúði Tíbet árið 1959 eftir mislukkaða uppreisn gegn yfirráðum Kína. Í dag komu hundruð Tíbeta saman til að taka þátt í bænastund í nágrannabænum McLeodganj, þar sem útlagaríkisstjórn Tíbet hefst við, áður en sjálf útförin og líkbrennsluathöfn fór fram.

Skrúðfylking mótorhjóla og bíla skreyttra með gulum, rauðum og bláum fána Tíbet fylgdi eftir sjúkrabílnum sem flutti lík Tsering. Móðir hans, Nyima Yangkyi, hvatti unga Tíbeta til að einbeita sér að menntun og líta ekki á sjálfsfórn sem möguleika.

„[Sonur minn] sá sjálfsfórn sem síðasta úrræðið, en ungir Tíbetar ættu ekki að fórna sjálfum sér, þess í stað ættu þeir að læra og vinna fyrir Tíbet,“ sagði hún í myndbandi sem gefið var út af samtökunum Rödd Tíbet sem staðsett eru í Noregi.

Táningurinn var áttundi Tíbetinn til að mótmæla með þessum hætti utan Kína. 18 ára tíbetskur munkur í Kína kveikti í sjálfum sér síðasta mánudag til að mótmæla ofríki stjórnvalda í Peking gagnvart heimalandi sínu.

Dalai Lama hefur lýst brennunum sem örvæntingarfullum aðgerðum sem hann stendur valdalaus frammi fyrir. Hann hefur sagst tregur til að fordæma þær enda vilji hann forðast að móðga fjölskyldur hinna látnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert