Neitaði að fjarlægja höfuðklút í aðgerð

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/ÞÖK

Sérfræðilækni var sagt upp störfum á breska spítalanum Sheffield Royal Hallamshire eftir að hann greindi frá því á bloggsíðu að múslímskur skurðlæknir hefði gengið út í miðri skurðaðgerð frekar en að fjarlægja höfuðklút af höfðinu á sér.

Í blogginu greindi svæfingalæknirinn Vladislav Rogozov frá atvikinu, þegar hann bað ónafngreindan kvenkyns skurðlækni um að fjarlægja höfuðklút sinn þegar þau þvoðu sér um hendurnar fyrir aðgerð.

Sagði hann lækninn hafa neitað að fjarlægja höfuðklút sinn og gengið út úr skurðstofunni með þeim afleiðingum að spítalinn þurfti að finna annan lækni til þess að framkvæma aðgerðina. Læknirinn lét síðar af störfum á spítalanum eftir að Rogozov fór fram á að atburðurinn yrði rannsakaður.

Starfsreglur spítalans kveða á um að starfsfólki spítalans sé heimilt að klæðast höfuðklútum af trúarlegum ástæðum á mörgum svæðum innan spítalans, en ekki á svæðum þar sem það gæti ógnað öryggi sjúklinga vegna smithættu. Á meðal staða þar sem starfsfólki er óheimilt að klæðast höfuðklútum eru t.d. skurðstofur.

Aðrir læknar óttuðust að vera stimplaðir sem rasistar

Atvikið sem um ræðir átti sér stað 2013, en ekki hafði verið greint frá því opinberlega fyrr en Rogozov greindi frá því í bloggi sínu, en þar lýsti hann einnig viðbrögðum annarra lækna eftir atvikið.

„Okkur tókst að finna annan skurðlækni til þess að framkvæma aðgerðina,” skrifaði hann og bætti við að í kjölfar aðgerðarinnar hafi aðrir skurðlæknar komið að máli við sig og lýst yfir áhyggjum af öryggi sjúklinga sinna.

Sagði hann læknana hafa verið tvístígandi þegar þeir lýstu yfir áhyggjum sínum af öryggi sjúklinga, af ótta við að vera sakaðir um rasíska tilburði og fordóma gegn íslamstrú.

„Ef læknar í þróuðum ríkjum óttast að ræða ógn við öryggi sjúklinga sinna vegna ásakana um rasisma, þá er það dæmi um fáránleika fjölmenningarsamfélags,” skrifaði hann.

Áhyggjur af tóninum í skrifum Rogozov

Í kjölfar ummæla Rogozov á bloggsíðunni var sett af stað rannsókn á ummælum hans, sem birtust m.a. í dagblaði í Slóvakíu. Talsmaður spítalans sagði að Rogozov hefði ekki verið sagt upp störfum fyrir umræðu um öryggi sjúklinga. „Frá því að greinin var birt, sem rekja má til starfsmannsins sem um ræðir, höfum við fengið ábendingar þar sem fólk lýsir yfir áhyggjum af orðalagi hans. Á þeim grundvelli eru nú efnistökin og skoðanirnar sem þarna birtust til rannsóknar,“ sagði hann.

Frétt The Telegraph um málið.

Vladislav Rogozov, var sagt upp störfum eftir að hafa greint …
Vladislav Rogozov, var sagt upp störfum eftir að hafa greint frá atvikinu sem kom upp á spítalanum árið 2013. Skjáskot/The Telegraph
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert