Sjónvarpsfréttamaður og myndatökumaður komust heldur betur í hann krappann í beinni útsendingu þegar stjórnlaus bifreið nálgaðist þá á ógnarhraða. Náði fréttamaðurinn að kasta sér frá á síðustu stundu.
Fréttamaðurinn sem um ræðir heitir Alex Savidge og starfar hann hjá sjónvarpsstöðinni KTVU í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Með honum í för var myndatökumaðurinn Chip Vaughan og voru þeir í beinni útsendingu þegar skyndilega heyrðist hávær bílflauta.
Fréttavefur Sky greinir frá því að Savidge hafi á síðustu stundu náð að kasta sér frá stjórnlausri bifreiðinni. Mátti á sama tíma heyra karlmann öskra „passaðu þig!“ Bíllinn staðnæmdist síðar skammt frá án þess að valda fólki tjóni.
„Þetta gerðist svo snöggt. Ég er bara þakklátur fyrir það að hann skyldi hafa hoppað í rétta átt,“ er haft eftir Vaughan myndatökumanni.
Þegar Savidge birtist svo aftur á skjánum var hann mjög upp með sér og sagði: „Ég er þakklátur fyrir að vera í lagi, það er það eina sem ég get sagt.“ Kom hann því næst með skilaboð til eiginkonu sinnar. „Ég veit ekki hvort konan mín ... hún er ekki að horfa. Ég hef ekki náð að hringja í hana. Ég vil bara segja konunni minni að það er í lagi með mig.“
Svo virðist sem fólksbifreið hafi verið ekið yfir gatnamót og í veg fyrir annan bíl með þeim afleiðingum að bílarnir rákust á. Telur lögreglan að ökumaður annars bílsins hafi því næst stigið á bensíngjöfina sem svo varð til þess að bílnum var ekið á mikilli ferð í átt að fréttamönnunum sem stóðu á bílastæði skammt frá.
Enginn slasaðist í óhappinu.
My heart's racing like crazy! Almost got hit by a car live on air, but I'm OK-Thanks everyone for your concern @KTVU pic.twitter.com/dQi7K2kKzD
— Alex Savidge (@AlexSavidgeKTVU) March 8, 2016