Læknir í Víetnam segist hafa fundið ákaflega sjaldgæft tilfelli tvíbura sem eru ekki samfeðra. Tvíburar sem fæddust pari voru settir í DNA-rannsókn vegna þess hversu ólíkir þeir voru í útliti. Kom þá í ljós að þeir áttu ekki sama föður.
„Þetta er ekki aðeins sjaldgæft í Víetnam heldur í öllum heiminum,“ sagði Le Dinh Luong, forseti Genafræðisamtaka Víetnam þegar hann tilkynnti uppgötvunina.
Tvíburar geta átt hvor sinn föðurinn ef tvö egg konu eru frjóvguð af tveimur mismunandi mönnum á sama egglostímabilinu.
Ríkisdagblaðið Tuoi Tre segir að fjölskylda eiginmanns konunnar hafi þrýst á hann að fara fram á DNA-rannsókn vegna þess hversu ólíkur annar tvíburinn var bæði honum og hinum tvíburanum. Rannsóknin útilokaði einnig að ruglingur hafi orðið á fæðingardeildinni og staðfesti að konan væri líffræðileg móðir beggja barnanna.
Tvíburarnir eru nú tveggja ára gamlir. Þeir eru af sama kyni og fæddust aðeins með nokkurra klukkustunda millibili. Þeir eru gerólíkir í útliti. Annar þeirra er með þykkt liðað hár en hinn með þunnt og slétt hár.