Breska götublaðið Sun greindi frá því á forsíðu sinni í morgun að Elísabet Bretadrottning væri hlynnt því að Bretland gengi úr Evrópusambandinu en breskir kjósendur munu greiða um það atkvæði 23. júní sumar.
Blaðið byggir frétt sína á tveimur atvikum þar sem drottningin er sögð hafa látið ummæli falla í þessa veru. Annars vegar í samtali við Nick Clegg, þáverandi aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, í matarboði í Windsor-kastala í aðdraganda þingkosninganna 2015 og hins vegar í móttöku fyrir þingmenn í Buckingham-höll.
Blaðið segir Elísabetu hafa meðal annars sagt við Clegg að hún teldi Evrópusambandið vera að þróast í ranga átt og lýst skoðunum sínum í þeim efnum í löngu máli. Ekki hafi farið á milli mála að mati þeirra sem heyrt hafi samtalið hvaða afstöðu drottningin hefði til málsins. Henni hefði ennfremur verið mikið niðri fyrir.
Viðbrögð frá Buckingham-höll voru á þá leið að drottningin væri pólitískt hlutlaus gagnvart málinu og að ekki yrði að öðru leyti tjáð sig um rangar yfirlýsingar ónafngreindra heimildarmanna. Clegg segist ennfremur ekki reka minni til þess að Elísabet hafi látið ummælin falla. Hann hefði án efa munað eftir þeim.
Þrátt fyrir það segir Sun heimildarmenn sína mjög áreiðanlega háttsetta aðila og að blaðið hefði aldrei birt fréttina ef hún byggði ekki á áreiðanlegum upplýsingum frá fleiri en einum heimildarmanni.