Baráttan um lyklana að Hvíta húsinu tók óvænta stefnu á þriðjudag þegar Bernie Sanders bar sigurorð af keppinauti sínum Hillary Clinton í forkosningum demókrata í Michigan.
„Þetta er búin að vera stórkostleg nótt í Michigan,“ sagði Sanders seint aðfaranótt miðvikudags eftir að ljóst varð að hann hafði naumlega unnið Clinton, með 49,9 prósent atkvæða gegn 48,2 prósentum hennar. Í sigurræðu sinni vék hann einnig að því hvernig íbúar borgarinnar Flint í Michigan hafa þurft að þola blýmengað vatn, líkt og sjá má í myndskeiðinu.
Sjá umfjallanir mbl.is: Blýmengun í Flint
Á sama tíma sigraði Clinton forkosningarnar í Mississippi auðveldlega. Ef svokallaðir ofurkjörmenn eru taldir með er Clinton nú komin hálfa leið að markmiði sínu, að tryggja sér þá 2.382 kjörmenn sem þarf til að fá útnefningu flokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember næstkomandi.
En óvæntur sigur Sanders í Michigan gefur framboði hans það eldsneyti sem það nauðsynlega þurfti til að halda áfram. Þá hafa í kjölfarið vaknað spurningar um getu Clintons til að sigra í lykilríkjum fari svo að hún bjóði sig fram til forseta fyrir hönd flokksins.
Clinton hefur sigrað í 13 af 22 forkosningum demókrata á meðan Trump hefur sigrað í 15 af 24.
Þá kom auðkýfingurinn Donald Trump ennþá sterkari út úr forkosningunum sem fram fóru hjá repúblikönum í gær, þar sem hann sigraði í þremur ríkjum af fjórum. Þurfti hann að láta sér lynda annað sætið hjá kjósendum í Idaho, þar sem Ted Cruz fór með sigur af hólmi.
Þeir sem töpuðu aðfaranótt miðvikudags voru hins vegar ríkisstjórinn John Kasich og annars vegar öldungadeildarþingmaðurinn Marco Rubio. Báðir eru nú að dragast langt aftur úr Trump og Cruz hvað varðar fjölda kjörmanna.
Rubio, helsta vonarstjarna flokksstjórnar repúblikana í baráttunni við Trump, vann sér hvorki inn kjörmenn í Michigan né í Mississippi, sem voru tveir stærstu bitar kvöldsins.