37 kíló þegar hann fannst

Yisrael Kristal á heimili sínu í Haifa í Ísrael.
Yisrael Kristal á heimili sínu í Haifa í Ísrael. AFP

Yisrael Kristal er einn þeirra fjölmörgu sem sendir voru í Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðir nasista í síðari heimsstyrjöld. Hann er fæddur árið 1903 nærri Zarnow í Póllandi og er nú orðinn elsti maður heims, þ.e. 112 ára og 178 daga gamall.

Á langri ævi hefur Yisrael því séð tvær heimsstyrjaldir og býr hann nú í Haifa í Ísrael.

Yisrael tekur við keflinu af japananum Yasutaro Koide sem lést í janúar síðastliðnum þá 112 ára og 312 daga gamall. Elsta manneskja heims er hins vegar bandaríska konan Susannah Mushatt Jones og er sú 116 ára gömul.

Þegar Yisrael fékk afhenda viðurkenningu vegna aldurs síns sagðist hann ekki vita hver lykillinn væri að því að ná háum aldri - allt væri „ákveðið ofan frá“.

„Það hafa verið gáfaðri, sterkari og myndarlegri menn til en ég sem ekki eru lengur á lífi,“ bætti hann við.

Yisrael er sonur fræðimanns og er fyrri heimsstyrjöld braust út varð hann fljótt viðskila við fjölskyldu sína. Að styrjöld lokinni flutti hann til Lodz og fór að vinna við sælgætisgerð.

Eftir að þýskar hersveitir réðust inn í Pólland 1939 var Yisrael og fjölskylda hans send í gyðingahverfið í Lodz. Bæði börn hans létust þar og var Yisrael og eiginkona hans, Chaja Feige Frucht, send til Auschwitz 1944 þegar gyðingahverfið var leyst upp. 

Chaja lést í útrýmingarbúðunum alræmdu en Yisrael komst hins vegar lífs af. Þegar bandamenn fundu hann 1945 var hann einungis 37 kíló.

Árið 1950 flutti hann svo til Ísrael ásamt seinni eiginkonu sinni og syni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert