Breska pressan ósátt við Obama

David Cameron (t.v.) og Barack Obama (t.h.).
David Cameron (t.v.) og Barack Obama (t.h.). AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, er sakaður um að hafa talað illa um David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í bresku pressunni. Tilefnið er tímaritsviðtal við Obama þar sem forsetinn gagnrýnir evrópska leiðtoga fyrir mistök í meðhöndlun þeirra á Líbíu eftir að Gaddafi hrökklaðist frá völdum.

Fyrirsögn á forsíðu breska blaðsins The Independent var „Obama rífur Cameron í sig vegna Líbíu“ og vísar til viðtals við Obama í The Atlantic. The Times segir að gagnrýni Obama á breska forsætisráðherrann sé stórfurðuleg og að hann sé að kenna Cameron um vandræðin í Líbíu.

Obama sagði í viðtalinu að önnur mál hafi dregið athygli Cameron frá Líbíu eftir að Múammar Gaddafi hvarf frá. Bretar og fleiri Evrópuþjóðir tóku þátt í hernaðaraðgerðum Bandaríkjamanna í landinu til að koma í veg fyrir fjöldamorð á óbreyttum borgurum. Obama sagði The Atlantic að hann hefði búist við því að Evrópulönd tækju virkari þátt í endurreisn landsins í kjölfarið.

„Þegar ég lít til baka ég spyr mig hvað fór úrskeiðis þá er rúm fyrir gagnrýni því ég hafði meiri trú að Evrópumennirnir, í ljósi nálægðarinnar við Líbíu, legðu meira í eftirleikinn,“ sagði bandaríski forsetinn við tímaritið.

Óöld ríkir nú í Líbíu og er landið talið geta verið öruggt skjól fyrir vígamenn Ríkis íslams.

Náið samband hefur verið á milli leiðtoga Bandaríkjanna og Bretlands í gegnum tíðina. Því voru bandarískir embættismenn fljótir að bregðast við uppnáminu í Bretlandi og sögðu Bandaríkin leggja mikla áherslu á stuðning Bretlands.

„Forsætisráðherrann David Cameron hefur verið einn nánasti bandamaður forsetans og við leggjum mikið upp úr framlagi Bretlands til sameiginlegs þjóðaröryggis okkar og utanríkismarkmiðum sem endurspegla einstakt og nauðsynlegt samband okkar,“ sagði talsmaður bandarískra stjórnvalda við ITV-fréttastöðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert