Útgönguspár benda til þess að Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel kanslara Þýskaland, hafi goldið afhroð í þremur sambandsþingskosningum sem haldnar voru í landinu í dag.
Kosningarnar eru þær stærstu sem haldnar hafa verið í Þýskalandi frá því að metfjöldi flóttamanna kom til landsins á síðasta ári og eru af mörgum taldar vera prófsteinn á þá ákvörðun Merkel að opna landið fyrir stríðshrjáðum flóttamönnum.
Fyrstu útgönguspár ríkisstöðvanna ARD og ZDF benda til þess að CDU hafi tapað miklu fylgi í Rheinland-Pfalz,(Rínarland-Pfalz), í Sachsen-Anhalt(Saxlandi-Anhalt) og í höfuðvígi sínu Baden-Würtemberg.
Stjórnmálaflokkurinn Annar kostur fyrir Þýskaland (AfD), sem m.a. berst gegn innflytjendum og Evrópusambandinu, virðist hafa náð að auka verulega við fylgi sitt með atkvæðum frá reiðum kjósendum.
AfD, sem hefur misboðið mörgum með því að leggja til að lögregla fái leyfi til þess að skjóta flóttamenn til að stemma við komu þeirra til landsins, virðist samkvæmt fyrstu spám hafa hlotið metkosningu.
Þannig benda fyrstu útgönguspár til þess að AfD hafi hlotið allt að 25% atkvæða í Saxony-Anhalt og yrði flokkurinn þar með annar stærsti flokkurinn á sambandsþinginu, og þá virðist AfD hafa hlotið 15% atkvæða í Baden-Wuerttemberg og veltir þar með jafnaðarmönnum (SPD) samstarfsflokki Merkel úr sessi sem þriðji stærsti flokkurinn í Baden-Wuerttemberg.
Dagblaðið Bild hefur kallað kosningarnar „hryllingsdag fyrir Merkel kanslara“ og sagt stórkostlegan árangur AfD vera „skýra refsingu fyrir stefnu hennar“.
„Þeir sem kusu okkur voru að kjósa gegn flóttamannastefnunni,“ hefur AFP eftir Alexander Gauland, varaformanni AfD.
„Okkar stefna í flóttamannamálinu er skýr, við viljum ekki taka við neinum flóttamönnum,“ sagði hann.