Samkvæmt nýrri rannsókn hefur sá hluti Dana sem þykir kristni „mjög mikilvægt“ þjóðareinkenni landsins minnkað um 6,4 prósent. Aðeins 8,6 prósent Dana þykja nú það að vera kristinn tilheyra því að vera „alvöru Dani“ samkvæmt danska ríkisútvarpinu sem segir það vera niðurstöðu alþjóðlegrar rannsóknar sem tók til 33 landa.
Christian Albrekt, prófessor í velferðarfræðum við Álaborgarháskóla stendur að danska hluta rannsóknarinnar og fjallar meðal annars um hana í nýrri bók sem ber nafnið „Den danske republik“.
„Fallið sýnir langvinna en örugga þróun frá kristindómi sem mikilvægri mælistiku að það að vera raunverulega danskur,“ segir Albrekt í viðtali við DR og útskýrir að þessi þróun sé að miklu leyti til komið vegna þess að „stríðskynslóðin“ eldri sé að deyja út og önnur yngri sé að taka yfir.
Menningar- og kirkjumálaráðherra Danmerkur, Bertel Haarder, segir í samtali við Kristeligt Dagblad að erfðaefni Danmerkur sé enn bundið við kristin gildi og að þessar tölur komi til vegna fávisku borgaranna. Það tekur formaður kirkjumála hjá Danska þjóðarflokksinum, Christian Langballe, undir.
„Ég er algjörlega sammála. Frá sjöunda og áttunda áratugnum hefur átt sér stað menningarbylting þar sem þekking Dana og þeim gildum og andlega arfi sem land vort byggir á hefur smám saman glatast.“