Ráðamenn Evrópusambandsins voru varkárir í yfirlýsingum sínum í dag um það hvort samningar náist við Tyrki um að ná tökum á flóttamannastrauminn sem legið hefur til Evrópu og ítrekuðu að margrar hindranir væru enn í veginum.
Meðal þeirra hindrana sem gætu verið á að samkomulag náist eru hótanir stjórnvalda á Kýpur um að koma í veg fyrir að aðildarumsókn Tyrkja að ESB fái flýtimeðferð, auk þess sem lagaleg vandkvæði geta verið á áætlunum um að senda alla flóttamenn sem koma til Grikklands, m.a. Sýrlendinga, aftur til Tyrklands.
Evrópusambandið er klofið í afstöðu sinni til samkomulagsins við Tyrki, sem ætlað er að loka helstu flóttamannaleiðinni inn í álfuna. En leiðtogar 28 ESB ríkja ræða innihald samkomulagsins í dag, áður en fundað verður með Ahmet Davutoglu , forsætisráðherra Tyrkja á morgun.
„Ég er hóflega bjartsýnn,“ hefur AFP fréttastofan eftir Donald Tusk, forseta Evrópska ráðherraráðsins. Lagði Tusk áherslu á að hann væri varkár frekar en bjartsýnn og varaði við að enn ætti eftir að finna lausn á fjölda mála.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kvaðst vera „frekar bjartsýnn á að samningar náist,“ og að hann muni að sjálfsögðu vera í samræmi við bæði evrópsk lög og Genfarsáttmálann.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði samninginn vera fyrsta raunverulega tækifærið til að binda enda hremmingarnar.
Drögin að samkomulaginu gera ráð fyrir að Tyrkir geti farið ferða sinna innan ESB án vegabréfsáritunar, auk þess sem opnað er á möguleikann á að allt að því tvöfalda styrkjagreiðslur til Tyrkja vegna Sýrlenskra flóttamanna.
Stirð samskipti Kýpur og Tyrklands geta þó valdið vandkvæðum, ekki síður en lagaleg málefni, en Sameinuðu þjóðirnar og fjölmörg mannréttindasamtök hafa bent á fólksflutningar á þeim skala sem um ræðir séu ólöglegir.
Drögin að samkomulaginu gera ráð fyrir að yfirvöld í Tyrklandi taki við öllum ólöglegum flóttamönnum sem nú eru strandaglópar í Grikklandi og að fyrir hvern sýrlenskan flóttamann sem Tyrkir taka til baka verði sýrlenskum flóttamanni á Tyrklandi veitt hæli innan Evrópusambandsins.
Um 40.000 flóttamenn eru núna í Grikklandi og búa þúsundir þeirra við slæman aðbúnað í bráðabirgðabúðum við landamæri Makedóníu.