Skothvellir hafa heyrst í Molenbeek, úthverfi Brusselborgar í Belgíu. Fréttastofa breska ríkisútvarpsins hefur þessar fregnir eftir belgíska ríkisútvarpinu, en lögregla þar í landi hóf í dag áhlaup til forvarnar hryðjuverkum.
Uppfært 16.25
Belgískir fjölmiðlar segja einn hafa særst í aðgerðum lögreglu. Það hefur þó ekki fengist staðfest. Forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, þurfti í skyndingu að yfirgefa fund Evrópusambandsins og Tyrklands í Brussel segir fréttamaður BBC.
Fyrr í dag fundust í íbúð í Brussel fingraför þess sem grunaður er um að hafa verið höfuðpaurinn að baki hryðjuverkunum í París, Salah Abdeslam. Hefur hann síðan í nóvember með réttu verið nefndur „eftirlýstasti maður Evrópu“.
Uppfært 16.32
Breska fréttastofan Sky News segir Salah Abdeslam hafa verið skotinn í aðgerðunum. Mun hann vera særður samkvæmt fregnum sem berast frá Brussel. Að minnsta kosti tíu skot hafa heyrst og þá hafa handsprengjur verið notaðar í þessu úthverfi Brussel.
Uppfært 16.36
Belgíski vefmiðillinn La Libre segir að Abdeslam og annar ónafngreindur maður hafi særst eftir skotbaardaga í Molenbeek.
Breska dagblaðið Telegraph segir Abdeslam særðan en að hann sé enn á lífi.
Uppfært 16.42
Sést hefur til lögregluþyrlna á lágflugi yfir Molenbeek og þá er fjöldi slökkviliðsvagna einnig á svæðinu, samkvæmt fregnum Sky News.
Abdeslam er franskur ríkisborgari en hann fæddist í Brussel árið 1989. Vitað er að hann bjó í Molenbeek-hverfinu áður en hryðjuverkin voru framin í París þann 13. nóvember síðastliðinn. Gerð hefur verið dauðaleit að Abdeslam allar götur síðan.
Uppfært 16.50
La Libre segir lögregluna enn ekki hafa staðfest hvort Abdeslam hafi verið handsamaður. Heimildir miðilsins segja hins vegar að Abdeslam sé innikróaður í íbúðinni sem aðgerðirnar beinast að.
Uppfært 16.59
Vinir Abdeslam hafa áður sagt að hann sé á milli steins og sleggju, þ.e. evrópska yfirvalda og liðsmanna Ríkis íslam, sem fylgist með honum og séu óánægðir með að hann hafi ekki sprengt sig í loft upp, kvöldið afdrifaríka í nóvembermánuði.
Sjá umfjöllun mbl.is: Snérist Abdeslam hugur?
Abdselam flúði Parísarborg keyrandi í marga klukkutíma strax í kjölfar hryðjuverkanna, sem urðu 130 manns að bana. Talið er að hann hafi átt veigamikinn þátt í skipulagningu þeirra.
Uppfært 17.05
Belgíska lögreglan hefur nú staðfest að Abdeslam hafi verið handsamaður á lífi. Abdeslam var skotinn í aðgerðunum og fær hann nú aðhlynningu á vettvangi.
Talið er að tveir hafi verið handteknir í aðgerðunum, þar á meðal Abdeslam og einn sé enn í felum í húsinu.