Forystumenn Evrópusambandins og Tyrklands hafa komið sér saman um samkomulag til þess að taka á flóttamannavandanum í Evrópu. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs sambandsins, tilkynnti þetta á Twitter-síðu sinni og sagði niðurstöðuna hafa verið samþykkta einróma.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að samkomulagið geri ráð fyrir að frá miðnætti næsta sunnudag verði allt förufólk sem kemur til Grikklands sent aftur til Tyrklands ef hælisumsókn þeirra er hafnað. Á móti munu ríki Evrópusambandsins taka við þúsundum Sýrlendinga sem í dag eru staddir í Tyrklandi.
Samkomulagið þýðir einnig að Evrópusambandið greiði Tyrkjum háar fjárhæðir til þess að takast á við flóttamannastrauminn frá Sýrlandi og að aðildarviðræðum Tyrkja við sambandið verði flýtt. Heimildarmaður BBC segir að 72 þúsund Sýrlendingar sem í dag eru í Tyrklandi verði fluttir til ríkja Evrópusambandsins.
Samkomulagið er háð því að sögn BBC að fjöldi Sýrlendinga sem sendur er til Tyrklands verði ekki meiri en fjöldinn sem sendur er frá Tyrklandi til ríkja Evrópusambandsins.
Now unanimous agreement between all EU HoSG and Turkey's PM on EU-Turkey Statement
— Donald Tusk (@eucopresident) March 18, 2016