Romney kýs Cruz fram yfir Trump

Mitt Romney, fyrrverandi forsetaefni Repúblikanaflokksins, segir Donald Trump óhæfan til …
Mitt Romney, fyrrverandi forsetaefni Repúblikanaflokksins, segir Donald Trump óhæfan til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna. AFP

Fyrrum forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, Mitt Romney, hyggst kjósa Ted Cruz, öldundardeildarþingmann frá Texas, frekar en Donald Trump. BBC greinir frá þessu.

Romney segir að eina leiðin til að stoppa „Trumpisma“ sé að kjósa Cruz, sem hann muni gera í forkosningunum í Utah, sem fara fram næstkomandi þriðjudag.

Romney greindi frá þessu á Facebook síðu sinni þar sem hann segir jafnframt að eina leiðin til að útnefna forsetaefni Repúblikanaflokksins sé að hafa opið flokksþing þar sem valdamenn í flokknum velji frambjóðandann.

Að sögn Romney ríkir samkeppni á milli „Trumpisma“ og stefnu Repúblikana innan fylgismanna flokksins. „Trumpismi tengist kynþáttahatri, kvenhatri, þröngsýni, útlendingahatri, dónaskap og nýtilkomnum hótunum og ofbeldi. Ég hafna þessu öllu með tölu,“ segir Romney.

Fátt virðist hins vegar geta stöðvað Trump, sem hefur nú þegar tryggt sér 678 kjörmenn, en 1.237 þarf til að hljóta útnefningu flokksins.

„Mitt Romney veit ekki sitt rjúkandi ráð. Það er ekki skrýtið að hann hafi tapað!,“ segir Trump á Twitter.

Ólga hefur ríkt innan Repúblikanaflokksins vegna umdeildra ummæla Trump um innflytjendur, konur og múslima, og óttast flokksmenn að ummælin geti veikt Trump í kosningabaráttunni, hljóti hann tilnefningu flokksins.

Frétt BBC í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert