Stjórnvöld í Úrúgvæ eru í vanda. Þau vita ekki hvað gera á við stærðarinnar forngrip sem sóttur var á hafsbotn og komið á land. Þarna er þó ekki á ferðinni gripur tengdur fornum samfélögum í Suður-Ameríkuríkinu heldur frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar.
Málið snýst um bronsstyttu sem athafnamaðurinn Alfredo Etchegaray sótti niður að flaki þýska herskipsins Admiral Graf von Spee sem sökk á La Plata-flóa árið 1939 skammt frá höfuðborg Úrúgvæ, Montevideo. Styttan prýddi skut skipsins og er af stórum erni með hakakross nasista í klónum en nasistar réðu á þeim tíma ríkjum í Þýskalandi.
Herskipið, sem gjarnan var kallað einfaldlega Graf Spee, hafði herjað á kaupskip bandamanna í Suður-Atlantshafi á upphafsmánuðum styrjaldarinnar undir stjórn skipherrans Hans Langsdorf. Bretar reyndu mikið að hafa hendur í hári skipsins en án árangurs.
Þann 13. desember 1939 sigldi Graf Spee hins vegar í flasið á tveimur breskum herskipum og einu nýsjálensku og kom til sjóorrustu. Skip bandamanna urðu fyrir miklum skemmdum í orrustunni og Graf Spee var einnig fyrir skemmdum og sigldi í kjölfarið til Montevideo.
Bretar gátu ekki hugsað sér að Graf Spee kæmist undan en langt var í næstu bresku herskip og skipin sem barist höfðu við þýska herskipið voru illa farin eftir átökin. Bretar gripu þá til þess ráðs að telja þýsku leyniþjónustunni trú um að öflug bresk flotadeild væri þegar komin við minni La Plata-flóans og biði þess að Graf Spee yfirgæfi Montevideo.
Þýska leyniþjónustan beit á agnið og kom upplýsingum um þetta til Langsdorf sem taldi að þá væri aðeins eitt að gera. Hann vildi ekki fórna áhöfn sinni í tilgangslausri orrustu og ekki heldur að skipið félli í hendur Bretum. Þann 18. desember sigldi Graf Spee út La Plata-flóa með lágmarkaáhöfn og þar sökkti áhöfnin skipinu.
Vandi úrúgvæskra stjórnvalda snýr að því að Etchegaray á lögum samkvæmt rétt á helmingnum af söluandvirði bronsstyttunnar sem áður prýddi Graf Spee. Hann vill að styttan fari á safn en talið er að hans hlutur í styttunni sé 15 milljóna dollara virði. Talið er að safnarar gætu mjög líklega haft áhuga á að kaupa styttuna.
Þýsk stjórnvöld hafa hins vegar þrýst á ráðamenn í Úrúgvæ að setja styttuna í geymslu og sjá til þess að hún verði ekki sýnileg almenningi. Hver niðurstaðan verður á eftir að koma í ljós. Fram kemur á vefsíðunni War History Online að slík stytta hafi aðeins verið á einu öðru þýsku herskipi, orrustuskipinu Bismarck sem sökk í maí 1941.