Barack Obama tilnefndi á miðvikudag dómarann Merrick Garland í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Varaði hann um leið repúblikana við því, að samþykki þeir ekki tilnefninguna muni sú ákvörðun raska heilindum bandarískra stofnana.
En taka þeir mark á orðum hans? Mun öldungadeildin, þar sem repúblikanar eru í meirihluta, samþykkja tilnefninguna? Allt lítur út fyrir að svo verði ekki. En málið er flóknara en virst gæti við fyrstu sýn.
Obama valdi hinn 63 ára gamla Garland til að koma í stað hins íhaldssama Antonin Scalia sem öllum að óvörum féll frá að kvöldi valentínusardags, fyrir rúmum mánuði. Scalia, þá 79 ára að aldri, var andlegur leiðtogi íhaldssömu hliðar réttarins.
Andlát hans batt skyndilegan endi á 5-4 meirihluta íhaldssamra í Hæstarétti og gaf um leið Obama færi á að tilefna sinn þriðja dómara við réttinn, á eftir þeim Soniu Sotomayor og Elenu Kagan.
Frétt mbl.is: Meira í húfi eftir fráfall Scalia
Merrick Garland vakti fyrst athygli á tíunda áratug síðustu aldar þegar hann var meðal annars saksóknari í máli Timothy McVeigh, sem dæmdur var sekur árið 1995 fyrir að hafa sprengt upp byggingu í Oklahomaborg. Á annað hundrað manns létust í sprengingunni og tæplega 700 særðust.
Við tilnefninguna, sem fór fram með athöfn í Rósagarðinum við Hvíta húsið á miðvikudag, sagði Obama að reynsla Garlands, allt frá því að vera saksóknari í máli sprengjumannsins til þess að gegna starfi aðstoðarmanns fyrir hæstaréttardómarann William Brennan heitinn, hefði „áunnið honum virðingu og aðdáun leiðtoga báðum megin gangsins.“
Garland klökknaði bersýnilega þegar hann flutti ávarp sitt að lokinni ræðu Obama. Lýsti hann fábrotnu uppeldi sínu í Chicago og sór þess eið að hann myndi vera trúr bandarísku stjórnarskránni ef honum hlotnaðist sá heiður að setjast í stól hæstaréttardómara.
„Traust á því, að réttlætinu sé fullnægt í dómssölum okkar án nokkurra fordóma eða flokkshollustu, er það sem að miklu leyti aðskilur þetta land frá öðrum,“ sagði Garland.
Hvaða skoðun sem menn hafa á tilnefningu Garlands til embættisins er öllum ljóst að um mikið er að tefla. Hæstaréttardómarar eru skipaðir til lífstíðar og úrskurðir réttarins geta haft gríðarleg áhrif á þau stóru mál sem umdeild eru í samfélaginu vestanhafs.
Repúblikanar óttast að Garland muni raska jafnvægi réttarins frjálslyndum í hag. Hafa þingmenn þeirra í öldungadeildinni heitið því að neita honum um að flytja mál sitt fyrir þinginu, sem annars er venja fyrir áður en dómari er staðfestur í embætti.
Repúblikanar í öldungadeildinni hafa hingað til verið harðir í afstöðu sinni gagnvart Obama og halda þeir því fast fram að tilnefningin eigi að vera í höndum arftaka hans. Hver sem það verður mun sverja embættiseið í janúar á næsta ári.
Í gær ítrekaði forseti öldungadeildarinnar og leiðtogi repúblikana í meirihlutanum, Mitch McConnell, að ekki yrði kosið um tilnefningu Garlands á meðan svokölluðu „lame duck“ tímabili Obama stæði. (Vestanhafs hefur lengi tíðkast að kenna þá stjórnmálamenn, sem ekki hafa verið endurkjörnir og bíða þess að láta starfi, við bæklaðar endur).
„Bandaríska þjóðin er í miðjum kosningum um hver verði næsti forseti landsins. Og sá forseti ætti að fá að gefa út þessa tilnefningu, sem mun hafa áhrif á réttinn í líklega heilan aldarfjórðung,“ sagði McConnell við fréttastofu sjónvarpsstöðvarinnar ABC.
„Þetta er ekki eitthvað sem hann gerir aleinn. Hann tilnefnir, við staðfestum.“
Repúblikanar eru að veðja á að frambjóðandi úr þeirra röðum muni fara með sigur af hólmi í forsetakosningunum. Vona þeir að töfin muni leyfa þeim að fylla skarð íhaldsmannsins Scalia með öðrum úr sama knérunni.
Frétt mbl.is: Aðeins fyrsta orrustan í miklu stríði
Obama, sem sjálfur var áður prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild háskólans í Chicago, biður repúblikana að endurskoða afstöðu sína.
„Ég bið einungis um að öldungadeildarþingmenn repúblikana leyfi honum að flytja mál sitt og yfirheyri hann á sanngjarnan hátt,“ sagði Obama. „Ef þið gerið það ekki, þá felst ekki aðeins í því afsölun þingsins á stjórnskipunarlegum skyldum sínum, heldur hefst þá vegferð sem ekki verður hægt að leiðrétta.
Hæstiréttur okkar er í raun og veru einstakur. Hann á að vera hafinn yfir stjórnmálin. Hann verður að vera það,“ sagði forsetinn.
Þetta þrátefli er svo aðeins líkt og dimmur undirleikur á kosningaári sem hefur hingað til verið nær fordæmalaust fyrir tilstuðlan þeirra Trump og Sanders. Um leið og forsetakosningarnar fara fram í nóvember er einnig kosið um embætti fjölmargra öldungadeildarþingmanna, en í deildinni eru tveir þingmenn frá hverju ríki Bandaríkjanna.
Í Hvíta húsinu er því vonast til að þrýstingur almennings muni neyða þingmenn repúblikana, einkum þá sem eiga sæti sitt undir í kosningunum, til að endurskoða afstöðu sína. Enda sýna skoðanakannanir að umtalsverður meirihluti Bandaríkjamanna, eða 63 prósent, vilja að þingið yfirheyri Garland að minnsta kosti. Aðeins 23 prósent þeirra vilja það ekki.
Þar á bæ er nú þegar ákaft þreifað eftir veikleikum í víglínu repúblikana. Demókratar gátu til dæmis glaðst þegar repúblikaninn Chuck Grassley, formaður dómsmálanefndar þingsins, samþykkti á fimmtudag að funda með Garland.
Sú ákvörðun Obama að tilnefna Garland í embættið er einnig erfiður ljár í þúfu repúblikana, þar sem öldungadeildin hefur áður staðfest tilnefningu hans í embætti lægra setts dómara. Orrin Hatch, þingmaður repúblikana sem greiddi atkvæði sitt með Garland fyrir áfrýjunardómstólinn í umdæmi Columbíu (e. DC), hefur varið þá ákvörðun sína.
„Hann er góður maður,“ segir Hatch. „En hann ætti ekki að koma inn í dómstólinn í þessu eitraða umhverfi. Ég er þreyttur á að Hæstiréttur sé notaður sem vígvöllur undir orrustur þessara fylkinga. Þess vegna vil ég fresta þessu fram á næsta ár. Sama hver verður forseti þá, þá verður það sanngjarnt.“
Í Garland gætu þó leynst ýmsir kostir sem repúblikunum gæti hugnast betur þegar fram líða stundir. Þar sem hann er 63 ára að aldri gætu þeir ekki þurft að bíða þess lengi að stóll hans við réttinn verði auður á ný, að minnsta kosti skemur en í tilfellum þeirra sem einnig voru taldir líklegir til tilnefningar.
Þá hefur forskot líklegasta forsetaframbjóðanda demókrata, Hillary Clinton, í skoðanakönnunum gagnvart líklegasta frambjóðanda repúblikana, Donald Trump, skotið mörgum repúblikanum skelk í bringu.
Þó að lokum gæti því svo farið að þeir neiti að kyngja bitanum og stöðvi hreinlega tilnefningu Garlands, gæti það verið til þess eins að sjá tilnefndan enn frjálslyndari dómara. Og þá mun eflaust einhverjum svelgjast á.