Belgískir saksóknarar hafa staðfest að sprengingarnar tvær á Zaventem-flugvellinum í Brussel, höfuðborg Belgíu, hafi verið sjálfsvígsárás. Sjónarvottar fullyrða að þeir hafi heyrt öskrað á arabísku um það leyti sem sprengingarnar urðu. Ekki liggur þó fyrir hverjir stóðu að árásunum en enginn hefur enn lýst þeim á hendur sér. Á þriðja hundrað lögreglumanna hafa verið sendir til Brussel og öryggisgæsla meðal annars við kjarnorkuver landsins hert.
Frétt mbl.is: Staðan í Brussel í hnotskurn
Fréttavefur breska ríkisútvarpsins BBC hefur eftir belgíska saksóknaranum Fredere van Leeuw að sprengingarnar í morgun á flugvellinum og í neðanjarðarlestakerfi Brusselborgar hafi verið hryðjuverkaárásir. Hafin hefur verið lögreglurannsókn á málinu. Forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, hefur fordæmt árásirnar sem heigulsverk. Sagði hann daginn svartan dag í sögu belgísku þjóðarinnar. „Það sem við óttuðumst hefur gerst,“ sagði hann. Belgar hefðu orðið fyrir árásum án þess að vera viðbúnir þeim.
Erlendir fjölmiðlar segja fjölda látinna kominn í 28. Þar af 13 á flugvellinum og 15 í neðanjarðarlestakerfinu. Breska blaðið Guardian segir að 136 hafi særst í hryðjuverkaárásunum. Þar af 10 alvarlega. Viðbúnaðarstig er í hámarki í Belgíu, flugvellinum og almenningssamgöngum hefur verið lokað auk ýmissa bygginga og fólk beðið um að halda sig heima. Árásirnar hafa verið fordæmdar af þjóðarleiðtogum víða um heim.
Öryggisráðstafanir hafa verið auknar á öðrum flugvöllum í Evrópu og víðar. Til að mynda á Heathrow og Gatwick í London. Franska innanríkisráðuneytið hefur greint frá því að 1.600 manna varalið lögreglunnar hafi verið kallað út til þess að gæta landamæra Frakklands og almenningssamgangna samkvæmt fréttavef Sky. Fréttavefur breska dagblaðsins Guardian greinir frá því að viðbúnaður lögreglu í Bretlandi hafi einnig verið aukinn og breskir ríkisborgarar í Evrópu beðnir að forðast fjölfarna staði. Öryggisráðstafanir hafa einnig verið auknar í Hollandi.
Þá herma fréttir að gæsla hafi verið aukin í New York í Bandaríkjunum við opinberar byggingar og samgöngumannvirki svo sem brýr og lestarstöðvar. Fjöldi lögreglumanna hafi verið kallaður út til þess að sinna gæslunni.
Fréttin verður uppfærð.