Hún situr á bekk, blóðug í framan og þakin ryki. Fötin hennar eru rifin og henni virðist vera afar brugðið. Mynd af henni fór víða í fjölmiðlum í gær en hún var meðal þeirra sem voru á Zaventem-flugvellinum í Brussel í Belgíu þegar árásirnar voru gerðar þar í gær.
Nú liggur fyrir að hún er flugfreyja hjá Jet Airways.
Nixdhi Chaphekar var á leið í vinnuna og átti að fljúga til Bandaríkjanna í gær. Blaðamaðurinn Ketecan Kardava tók myndina af henni þar sem hún sat skelfingu lostin á bekk í flugstöðinni. Gulur búningur hennar er rifinn og hún er í einum skó og tæplega það.
Chaphekar var flutt á sjúkrahús þar sem hún hlaut aðhlynningu.
Við hlið hennar situr kona og er hönd hennar þakin blóði. Hún er að tala í símann og virðist fegin að hafa náð í gegn.