Belgíska lögreglan leitaði til almennings í dag eftir upplýsingum um mennina þrjá sem talið er að hafi staðið á bak við árásirnar á flugvellinum í Brussel. Talið er að bræðurnir Khalid og Ibrahim el-Bakroui hafi sprengt sig upp en þriðji maðurinn heitir Najim Laachraoui.
Uppfærð frétt: Búið að handsama þriðja manninn
Vísbendingar eru um að Laachroui sé sá þriðji en það byggist á samanburði á gömlum myndum af honum og myndinni úr öryggismyndavél á flugvellinum sem var dreift í gær.
Lögregla leitaði Laachraouis áður en til árásanna kom í gær en lífsýni úr honum fundust í húsum sem árásarmennirnir í París héldu til í. Hann fór til Ungverjalands í september með Salah Abdeslam, sem tók þátt í hryðjuverkunum í París.
Laachraoui er 24 ára gamall og samkvæmt frétt Sky er talið að hann hafi flúið af flugvellinum þegar sprengjubúnaður hans virkaði ekki. Talið er að hann hafi búið til sprengjurnar sem voru notaðar við fjöldamorðin í París í nóvember en lífsýni úr honum fundust á sjálfsvígsbeltum sem voru notuð við árásirnar í Bataclan-tónlistarhúsinu og þjóðarleikvangi Frakka, Stade de France.
Laachraoui ólst upp í úthverfi Brussel, Schaerbeek, og var vel þekktur af lögreglu. Talið er að hann hafi farið til Sýrlands árið 2013. Talið er að hann hafi gegnt lykilhlutverki í að fá ungt fólk til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams í Brussel. Alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur honum árið 2014 en það kom ekki í veg fyrir að hann kæmist aftur til Belgíu. Frá því í desember hefur lögreglan leitað að manni sem gengur undir nafninu Soufiane Kayal en nýlega kom í ljós að það er Laachraoui.
Belgíska lögreglan leitaði til almennings í dag eftir upplýsingum um mennina tvo sem taldir eru hafa framið sjálfsvígsárásir á flugvellinum í Brussel í gær í nafni Ríkis íslams. Ákallið á Twitter er eftirfarandi: Hryðjuverk: Hver þekkir þessa menn?
Lögreglan hefur birt nokkrar færslur á Twitter í nótt og í morgun þar sem birtar eru myndir af mönnunum tveimur þar sem þeir ýta hlöðum farangursvögnum áfram í gegnum brottfararsal flugvallarins.
Birtar eru þrjár útgáfur af mönnunum sem talið er að hafi sprengt sig upp á flugvellinum.
Þriðji maðurinn, klæddur ljósum jakka og með dökkan hatt, er talinn hafa flúið af vettvangi og er hans nú ákaft leitað.
Belgísk yfirvöld sögðu í morgun að ekki væri enn hægt að gefa staðfesta tölu um fjölda látinna en vitað væri að yfir 30 hefðu látist í árásunum á flugvellinum og Maelbeek-lestarstöðinni í gær.
„Við erum ekki með endanlega tölu og eins og staðan er nú þá er talan sú sama og við gáfum upp í gær, rúmlega þrjátíu látnir og um 250 særðir,“ segir talsmaður hryðjuverkadeildar lögreglunnar.
Belgíska ríkisútvarpið, RTBF, hefur nafngreint mennina tvo sem frömdu sjálfsvígsárásirnar, Khalid og Ibrahim el-Bakroui. Það hefur hins vegar ekki fengist staðfest hjá lögreglu né saksóknara. Lögregla hafði leitað bræðranna í tengslum við hryðjuverkin í París en þeir voru grunaðir um að hafa leigt íbúðir og aðra felustaði fyrir hryðjuverkahópinn sem gerði árásirnar í París.
Ekkert verður flogið um Zaventem-flugvöllinn í Brussel í dag og götur við Maelbeek-lestarstöðina verða áfram lokaðar. Hluti af neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar er opinn og leita hermenn í farangri fólks þegar það kemur inn á stöðvarnar núna í morgunsárið, að sögn farþega. Guardian greinir frá því að allir sem koma að innganginum á Brouckère-lestarstöðinni þurfi að opna töskur sínar og poka áður en þeir fá að fara inn. Vopnaðir hermenn annast eftirlitið.
Belgísku bræðurnir el-Bakraoui eru vel þekktir fyrir glæpi sína hjá lögreglunni í Brussel en ekki er langt síðan þeir voru tengdir við hryðjuverkin í París. El-Bakraoui-bræðurnir eru frá Brussel og eiga sér langa sögu í skipulagðri glæpastarfsemi í heimalandinu. Þeir eru meðal þeirra sem belgíska lögreglan hefur leitað undanfarna daga en tengingin kom í ljós þegar lögregla gerði húsleit á nokkrum stöðum í Brussel nýverið.
Annar bræðranna (Khalid) leigði íbúðina í Forest í suðvesturhluta Brussel, þar sem lögreglan gerði húsleit á þriðjudaginn fyrir rúmri viku, undir fölsku nafni. Talið er að Salah Abdeslam hafi verið í íbúðinni, þar sem fingraför hans fundust þar, en hann var handsamaður á föstudag og ákærður fyrir hryðjuverk og morð í París. Við húsleit í íbúðinni í Forest fannst mikið magn vopna og fáni Ríkis íslams og einn liðsmanna hryðjuverkahópsins sem stóð á bak við árásirnar í París, Alsírbúinn Mohamed Belkaïd, var skotinn til bana af leyniskyttu lögreglunnar.
Jafnframt er vitað að Khalid el-Bakraoui leigði íbúð í Charleroi í Belgíu sem var einn af felustöðum árásarmannanna í París. Þeir eru jafnframt grunaðir um að hafa útvegað skotfæri og vopn fyrir árásina í París. Þar er talið að Abdeslam og félagar hans frá Brussel sem tóku þátt í hryðjuverkaárásinni í París hafi haldið til áður en þeir fóru til Parísar til þess að fremja ódæðið 13. nóvember í fyrra.