Lögregla hefur haft hendur í hári Najims Laachraouis, manns sem er grunaður um aðild að árásunum í gær og árásunum í París í Frakklandi í nóvember. Hann var handtekinn í Anderlecht-hverfinu í Brussel í Belgíu, að því er fram kemur í belgíska dagblaðinu DH, og helstu fréttamiðlar, s.s. AFP, BBC, Telegraph og Guardian hafa greint frá. Fleiri belgískir miðlar birtu frétt um handtökuna.
Uppfært: Draga til baka fréttir um handtökuna
Saksóknari mun halda blaðamannafund vegna málsins í dag.
Óstaðfestar fregnir herma að Laachraoui hafi verið handtekinn á pítsustað. Þá er einnig talið hugsanlegt að bróðir hans hafi verið sá sem sprengdi sig upp í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar í gær.
Belgíska lögreglan leitaði til almennings í dag eftir upplýsingum um mennina þrjá sem talið er að hafi staðið á bak við árásirnar á flugvellinum í Brussel. Talið er að bræðurnir Khalid og Ibrahim el-Bakroui hafi sprengt sig upp en þriðji maðurinn heitir Najim Laachraoui.
Vísbendingar eru um að Laachroui sé sá þriðji en það byggist á samanburði á gömlum myndum af honum og myndinni úr öryggismyndavél á flugvellinum sem var dreift í gær.
Lögregla leitaði Laachraouis áður en til árásanna kom í gær en lífsýni úr honum fundust í húsum sem árásarmennirnir í París héldu til í. Hann fór til Ungverjalands í september með Salah Abdeslam, sem tók þátt í hryðjuverkunum í París.
Laachraoui er 24 ára gamall og samkvæmt frétt Sky er talið að hann hafi flúið af flugvellinum þegar sprengjubúnaður hans virkaði ekki. Talið er að hann hafi búið til sprengjurnar sem voru notaðar við fjöldamorðin í París í nóvember en lífsýni úr honum fundust á sjálfsvígsbeltum sem voru notuð við árásirnar í Bataclan-tónlistarhúsinu og þjóðarleikvangi Frakka, Stade de France.
Laachraoui ólst upp í úthverfi Brussel, Schaerbeek, og var vel þekktur af lögreglu. Talið er að hann hafi farið til Sýrlands árið 2013. Talið er að hann hafi gegnt lykilhlutverki í að fá ungt fólk til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams í Brussel. Alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur honum árið 2014 en það kom ekki í veg fyrir að hann kæmist aftur til Belgíu. Frá því í desember hefur lögreglan leitað að manni sem gengur undir nafninu Soufiane Kayal en nýlega kom í ljós að það er Laachraoui.