Bandaríkjamaður hefur verið handtekinn eftir að honum láðist að skila myndbandsspólu sem hann tók á leigu fyrir fjórtán árum.
Maðurinn, nokkur James Meyers, segist hafa verið stöðvaður af lögreglu vegna þess að hemlaljósið á bílnum hans virkaði ekki. Þá sagði lögreglumaðurinn honum að handtökuskipun hefði verið gefin út á hendur honum.
Árið 2002 hafði Meyers leigt spólu með myndinni Freddie Got Fingered frá myndbandsleigunni J&J's Video, sem síðan þá hefur lokað sínum dyrum. Í kjölfarið var hann kærður fyrir að hafa mistekist að skila spólunni.
„Ég veit ekki hvernig ég á að segja þér þetta, en það er handtökuskipun á hendur þér frá árinu 2002,“ á lögreglumaðurinn að hafa sagt við Meyers. „Ég hélt hann væri að grínast,“ sagði Meyers í viðtali við fréttastofuna WSOC.
„Í fyrsta skipti á ævi minni var ég settur í handjárn.“
Á lögreglustöðinni var tekin af honum skýrsla og honum gefin dagsetning til að mæta í réttarsal. Kæran var hins vegar dregin til baka.
Freddie Got Fingered, sem kom út árið 2001, fjallar um atvinnulausan myndasöguteiknara sem flytur inn til foreldra sinna. Hlaut hún miður góðar viðtökur gagnrýnenda og olli dræm miðasala í kvikmyndahús miklum vonbrigðum aðstandenda.