Hundruð þúsunda Kúbverja er vænst á tónleikum sveitarinnar Rolling Stones í Havana síðar í kvöld. Stórstjörnurnar undir forystu Mick Jaggers lentu á eyjunni í gær til að undirbúa sig fyrir tónleikana en þeir verða áhugasömum að kostnaðarlausu.
Ríkisfjölmiðlar Kúbu spá því að um hálf milljón manna muni vera viðstödd tónleikana en tónlistartímaritið Billboard telur að næstum jafn margir muni fylla nærliggjandi stræti.
Þremur dögum eftir tímamótaheimsókn Bandaríkjaforsetans Barack Obama til eyjarinnar er litið á tónleikana sem enn annað skref fyrir Kúbu út úr einangrun síðustu áratuga.